135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:02]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta heilbrigðisnefndar um frumvarp til laga um sjúkratryggingar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund þá aðila sem greint er frá í nefndarálitinu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um þögn í salnum. Viljið þið gefa ræðumanni hljóð.)

Alls voru það 33 aðilar sem voru talsmenn 18 umsagnaraðila.

Umsagnir bárust um málið frá þeim aðilum sem greint er frá í nefndarálitinu en þeir voru um 40 sem taldir voru upp þar.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um sjúkratryggingar. Þá er einnig lagt til að komið verði á fót nýrri stofnun sem annist um framkvæmd sjúkratrygginga, kaup á vörum og þjónustu og samninga og endurgjald vegna heilbrigðisþjónustu í samræmi við stefnumörkun ráðherra á hverjum tíma. Stofnunin tekur við hlutverki Tryggingastofnunar ríkisins hvað snertir framkvæmd sjúkratrygginga, auk framkvæmdar sjúklingatryggingar samkvæmt lögum nr. 111/2000.

Frumvarpið kemur í kjölfar breyttrar verkaskiptingar innan stjórnarráðsins er tók gildi um síðustu áramót með breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands. Verkaskiptingin fól m.a. í sér að samhæfa og gera skilvirkara hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu gagnvart þeim sem hana veita og skipta verkefnum Tryggingastofnunar ríkisins upp. Hún fól jafnframt í sér að afmarka sjúkratryggingar betur innan heilbrigðisráðuneytis og færa lífeyristryggingar og félagslegar bætur til félagsmálaráðuneytis.

Frumvarpið er að meginstefnu annars vegar byggt á ákvæðum laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, V. kafla um sjúkratryggingar, sem er efnislega að mestu óbreyttur en á talsvert öðru og skýrara formi. Hins vegar byggist frumvarpið á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, um samninga um heilbrigðisþjónustu. Hvað þessa þætti varðar er því fyrst og fremst um formbreytingar að ræða en ekki miklar efnisbreytingar.

Þá er í frumvarpinu kveðið á um nýja stjórnsýslustofnun, eins og áður segir. Meiri hlutinn bendir á að stofnunin þarf að hafa breiða faglega þekkingu til að tryggja henni sterkt samningsumhverfi. Þannig þarf stofnunin að hafa á að skipa sérfræðiþekkingu sem tryggi að saman geti farið innan stofnunarinnar fagleg og fjárhagsleg hæfni til að meta sjálfstætt aðstæður við samningsgerð hverju sinni, mat á heilsufarslegum þörfum notenda almennt og þeim áhættum sem kunna að felast í tilteknum aðgerðum eða aðgerðaleysi aðila sérstaklega. Meiri hlutinn leggur áherslu á að gert er ráð fyrir að þjónusta nýrrar stofnunar og viðmót hennar gagnvart þeim sem á þjónustu þurfa að halda verði einföld og skilvirk.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um sjúkratryggingar en í 17. og 22. gr. eru ákvæði um heilsugæslu og aðra sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Meiri hlutinn telur rétt að taka fram að með 17. gr. frumvarpsins eru heimildir til greiðsluþátttöku ríkisins í hjúkrun rýmkaðar frá gildandi lögum með því að þær eru ekki lengur bundnar við heimahjúkrun heldur einnig aðra sérhæfða hjúkrunarmeðferð utan sjúkrahúsa. Þá er í 22. gr. tekið fram að sjúkratryggingar taki til annarrar sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu og nefnt sem dæmi aðstoð ljósmóður við fæðingar í heimahúsum og sérhæfð meðferð alvarlegra húðsjúkdóma. Telur meiri hlutinn rétt að taka fram að upptalning þessi er ekki tæmandi og að undir þetta fellur einnig sængurlega í heimahúsum, sálfræðileg meðferð og önnur þjónusta heilbrigðisstétta og starfsmanna sem samið hefur verið við samkvæmt ákvæðum þessum.

Í frumvarpinu eru ákvæði um að sjúkratryggingastofnun geti áskilið vottorð sérfræðinga, svo sem um nauðsyn þjálfunar eða hjálpartækis skv. m.a. 21. og 26. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn telur rétt að taka fram að þegar vísað er til sérfræðinga í frumvarpinu er ekki eingöngu átt við sérfræðinga innan sérgreina læknisfræðinnar heldur einnig sérfræðinga í viðkomandi greinum heilbrigðisstétta. Meiri hlutinn lítur þannig á að sérfræðingur í skilningi frumvarpsins sé einnig sérfræðingur á viðkomandi sviðum heilbrigðisþjónustu sem greiðsluþátttaka sjúkratrygginga tekur til samkvæmt samningum þar um.

Í frumvarpinu eru engar nýjar gjaldtökuheimildir frá því sem nú er samkvæmt lögum og reglugerðum. Hins vegar ræddi nefndin ýmis atriði er varða gjaldtökuheimildir sem kveðið er á um í 29. gr. frumvarpsins.

Í 18. gr. frumvarpsins er fjallað um að sjúkratryggingar taki til ókeypis vistar á sjúkrahúsum að ráði læknis. Í því sambandi ræddi nefndin sérstaklega um gjaldtöku á göngudeildum sjúkrahúsa vegna meðferðar og rannsókna án innlagnar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að greiðsluþátttaka sjúklings vegna rannsókna og annars undirbúnings vegna innlagnar á sjúkrahús og vegna langvarandi meðferðar sem veitt er á göngudeild sjúkrahúsa án innlagnar verði skoðuð sérstaklega þar sem hún er mjög íþyngjandi fyrir sjúklinga og felur jafnvel í sér mismunun milli sjúklingahópa og meðferða. Meiri hlutinn telur mikilvægt að þessi atriði verði til skoðunar í nefnd heilbrigðisráðherra um endurskoðun á gjaldtöku í heilbrigðisþjónustu sem fyrirhugað er að skili niðurstöðum á haustdögum.

Á fundum nefndarinnar komu fram athugasemdir frá umboðsmanni barna um að með 1. mgr. 32. gr. frumvarpsins séu lagðar til breytingar á rétti til sjúkradagpeninga frá gildandi lögum með því að réttur til sjúkradagpeninga er bundinn við að umsækjandi hafi náð 18 ára aldri í stað 16 ára. Meiri hlutinn telur að 18 ára aldur eigi að vera hið almenna viðmið í lögunum en í ljósi athugasemdanna leggur meiri hlutinn til að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um undanþágu frá aldursskilyrði 1. mgr. fyrir 16 og 17 ára börn með rökum sem fram koma í nefndarálitinu.

Í 3. mgr. 29. gr. er þeim heilbrigðisstofnunum sem fengið hafa heimild ráðherra til að veita ósjúkratryggðum einstaklingum heilbrigðisþjónustu á einkaréttarlegum grundvelli samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu heimilað að taka hærra gjald fyrir þjónustuna en nemur kostnaði af veitingu hennar. Hér er um sambærilegt ákvæði að ræða og er í gildandi lögum og lýtur að heimild til sölu heilbrigðisþjónustu úr landi í þeim skilningi að þjónustan sé veitt útlendingum sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi. Á þetta við um sérhæfðar skurðaðgerðir eða meðferðir þannig að það skerði ekki lögbundna þjónustu stofnunarinnar við sjúkratryggða einstaklinga.

Í 38. gr. frumvarpsins segir að séu samningar um heilbrigðisþjónustu ekki fyrir hendi sé í sérstökum tilfellum heimilt tímabundið að endurgreiða sjúkratryggðum útlagðan kostnað vegna heilbrigðisþjónustu á grundvelli gjaldskrár sem sjúkratryggingastofnunin gefur út. Þetta ákvæði er nýmæli en einungis er gert ráð fyrir að ávallt verði gripið til slíks úrræðis tímabundið og ákvæðið heimilar ekki að komið sé á varanlegu endurgreiðslukerfi án þess að fyrir liggi samningar milli sjúkratryggingastofnunarinnar og viðsemjenda. Meginreglan er því enn sem fyrr að samningur milli sjúkratryggingastofnunarinnar og veitenda þjónustu þarf að liggja fyrir ef til þess á að koma að ríkið greiði hlutdeild í kostnaði við heilbrigðisþjónustu.

Nefndin ræddi um IV. kafla frumvarpsins sem fjallar um samninga um heilbrigðisþjónustu. Í 39. gr. er kveðið á um nýmæli en þar er gert ráð fyrir að sjúkratryggingastofnunin geri samninga við heilbrigðisstofnanir, sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir, fyrirtæki og einstaklinga um veitingu heilbrigðisþjónustu sem felur í sér að ekki er gert ráð fyrir að samið verði við fagfélög og stéttarfélög eins og tíðkast hefur.

Í 40. gr. frumvarpsins eru ákvæði um samninga í heilbrigðisþjónustu og í 2. mgr. er tekið fram að við samningsgerð skuli tryggja jafnræði í aðgengi sjúkratryggðra að þeirri þjónustu, m.a. hvað varðar efnahag og búsetu, enda er það í samræmi við markmið frumvarpsins eins og fram kemur í 1. gr.

Í 3. mgr. 40. gr. kemur fram að við val á viðsemjendum skuli hlutlæg og málefnaleg sjónarmið lögð til grundvallar mati á því við hvaða aðila skuli samið. Þar kemur jafnframt fram að við valið skuli tekið mið af stefnumörkun ráðherra samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og öðrum lögum en einnig skal tekið mið af hæfni, gæðum, hagkvæmni, kostnaði, öryggi, viðhaldi nauðsynlegrar þekkingar og jafnræði.

Með þessum málefnalegu viðmiðunum sem lögð eru til grundvallar vali sjúkratryggingastofnunarinnar á samningsaðilum telur meiri hlutinn nauðsyn að höfð sé hliðsjón af markmiðum samkeppnislaga og að gætt sé jafnræðis með þeim sem sækjast eftir að gera samninga um tiltekna heilbrigðisþjónustu við heilbrigðisyfirvöld eða um greiðslu fyrir slíka þjónustu. Meiri hlutinn telur að í samningum við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn og aðra rekstraraðila annars vegar og hins vegar við stofnanir ríkisins verði gætt jafnræðis og óhlutdrægni þannig að rekstrar- og samkeppnisstaða aðila sé tryggð. Þannig ítrekar meiri hlutinn þá skoðun heilbrigðis- og trygginganefndar frá árinu 2001 þegar sambærileg heimild til ráðherra um að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja stefnu um forgangsröðun, aukna hagkvæmni og aukin gæði í heilbrigðisþjónustu var fyrst sett í lög um heilbrigðisþjónustu, að hún kæmi ekki í veg fyrir beitingu samkeppnislaga í atvinnustarfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu. Þessi atriði ásamt þeim meginreglum sem felast í samkeppnislögum setja ákvörðunum ráðherra og sjúkratryggingastofnunarinnar í þessum málaflokki þann ramma sem nauðsynlegur er. Meiri hlutinn telur ljóst að þegar ráðherra eða sjúkratryggingastofnun forgangsraða verkefnum innan opinbera heilbrigðiskerfisins eða ákveður að fela opinberum aðilum að sinna ákveðinni þjónustu með vísan til þeirra sjónarmiða sem greind eru sem lögmæt viðmið í 40. gr. þá varðar það ekki samkeppnislög. Einkaaðilar geta þannig t.d. ekki með vísan til samkeppnislaga krafist að fá tiltekna þjónustu boðna út ef úthýsing á þjónustunni gerði sjúkratryggingastofnuninni ókleift að tryggja opinberum heilbrigðisstofnunum fullnægjandi magn verkefna til að tryggja fullnægjandi viðhald þekkingar og fjölbreytni í verkefnum út frá öryggis- og kennsluhlutverki stofnananna, jafnvel þótt þeir geti boðið lægra verð. Á hinn bóginn skulu ráðherra og sjúkratryggingastofnun fara að samkeppnislögum þegar ákveðið hefur verið að leita verðtilboða frá veitendum heilbrigðisþjónustu.

Í 3. mgr. 40. gr. kemur einnig fram það markmið að við samningsgerð um heilbrigðisþjónustu skuli þess gætt að raska ekki þeirri þjónustu sem veita ber samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Í því sambandi vill meiri hlutinn benda á að með þessu er reynt að girða fyrir það sem kallast „rjómafleyting“ í heilbrigðisþjónustu, þ.e. að aðilar utan hins opinbera kerfis geti tínt út ábatasömustu þjónustuþættina ef það þýðir að hið opinbera þjónustukerfi missi hæfni til að beita þjónustu á hagkvæman og öruggan hátt og þegar upp er staðið geti heildarkostnaður orðið meiri.

Þá vill meiri hlutinn leggja áherslu á að þegar samningar eru gerðir um tiltekna þjónustu verði þess gætt að samningar verði gerðir við fleiri en einn aðila til að gæta samkeppnis- og öryggissjónarmiða. Það er gert til að tryggja að þekking aðila sem veita sambærilega þjónustu viðhaldist og að þeir sem eru í samkeppni um að veita tiltekna þjónustu detti ekki af „markaðnum“ sem leiði til ástands sem líkja má við fákeppni innan viðkomandi sviðs. Jafnframt leggur meiri hlutinn áherslu á að í samningum um veitingu heilbrigðisþjónustu, hvort heldur um er að ræða opinbera aðila eða aðra, skuli semja um að viðkomandi taki að sér menntunar- og þjálfunarhlutverk, sé þess nokkur kostur, til að tryggja endurnýjun þekkingar innan viðkomandi sviðs.

Meiri hlutinn vekur athygli á 43. gr. frumvarpsins sem segir að um gjald sem sjúkratryggður greiði fyrir þjónustuna fari skv. 29. gr. og er veitendum þjónustu óheimilt að krefja hann um frekara gjald. Í samningi milli sjúkratryggingastofnunarinnar og viðsemjanda felist því heildarendurgjald fyrir þá þjónustu sem viðsemjandi stofnunarinnar tekur að sér að veita sjúkratryggðum. Veitanda þjónustunnar er þannig óheimilt að krefja sjúkratryggðan um annað eða hærra gjald en gert er ráð fyrir að hann greiði skv. 29. gr. frumvarpsins. Því er að mati meiri hlutans óleyfilegt að kaupa sig fram fyrir aðra þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Var þeirri spurningu velt upp í þessu samhengi við meðferð málsins innan nefndarinnar hvort sjúkratryggður einstaklingur ætti þess kost að afþakka kostnaðarþátttöku sjúkratryggingastofnunarinnar og komast þannig fram fyrir aðra sjúkratryggða einstaklinga í biðröð. Svo er ekki og verður heldur ekki í kjölfar þessarar löggjafar. Í núgildandi samningum milli Tryggingastofnunar ríkisins og lækna er ákvæði sem felur m.a. í sér að sjúkratryggðum einstaklingi er heimilt að óska skriflega eftir því að læknir taki hann til meðferðar án greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og skilyrði fyrir því eru tínd fram í nefndarálitinu. Nefndin telur að með því sé algerlega girt fyrir að veitendur heilbrigðisþjónustu sem semja við sjúkratryggingastofnunina geti veitt sjúkratryggðum einstaklingi forgang á biðlista eða aðra ívilnun gegn því að hann borgi kostnað við aðgerð að fullu.

Í 45. gr. frumvarpsins er fjallað um gæði og eftirlit og er tekið fram að sjúkratryggingastofnunin skuli hafa náið samráð við landlækni um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits, enda er kveðið á um það í 45. gr. frumvarpsins hvernig því samstarfi skuli háttað. Má telja líklegt að þarfir þessara stofnana séu að talsverðum hluta sambærilegar og að þær geti nýtt sömu gagnalindir eða heilbrigðisskrár landlæknis eins og kveðið er á um í greininni. Jafnframt leggur meiri hlutinn áherslu á að í samningum við aðila verði gætt að faglegum kröfum, þar með talin mönnun og samsetningu mannafla.

Virðulegi forseti. Meiri hlutinn leggur til að við 47. gr., sem fjallar um samninga á kaupum á vörum og þjónustu, bætist ný málsgrein sem felur í sér þann skilning nefndarinnar að sjúkratryggingastofnuninni beri að leita bestu mögulegra kjara, að teknu tilliti til gæða, á þeim vörum og þjónustu sem hún greiðir eða tekur þátt í að greiða samkvæmt lögum þessum en sambærileg grein er í gildandi lögum um almannatryggingar.

Fram komu fyrir nefndinni athugasemdir er tengjast réttindum þeirra sem njóta endurhæfingarlífeyris og að þeirra sé ekki gætt í frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að þeir sem njóta endurhæfingarlífeyris halda réttindum sínum með þeim röksemdum sem fram koma í nefndarálitinu.

Á fundum nefndarinnar var rætt um mikilvægi þess að flýtt verði vinnu við rafræna sjúkraskrá enda er hún grundvallargagn við greiningu á þörfum í heilbrigðisþjónustu. Meiri hlutinn fagnar því að frumvarp um sjúkraskrá hefur nú verið lagt fyrir Alþingi og leggur áherslu á að nefndin fái það til umfjöllunar og afgreiðslu við fyrsta tækifæri.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu en í 45. gr. frumvarpsins er fjallað um gæði og eftirlit sjúkratryggingastofnunar með starfsemi samningsaðila. Í 2. mgr. 45. gr. segir að stofnunin geti ákveðið að setja í samninga ákvæði sem ætlað er að stuðla að gæðum og árangri þjónustunnar, m.a. um gæðastjórnunarkerfi og vottun þeirra, faggildingu, árangursmælingar og upplýsinga- og skýrslugjöf. Meiri hlutinn leggur til breytingu á þessu ákvæði sem felur í sér að kveðið verði skýrar á um þetta eftirlit, þ.e. að stofnunin skuli setja slík ákvæði í þessa samninga í stað heimildarákvæðis eins og nú er í frumvarpinu.

Meiri hlutinn leggur einnig til þá breytingu á 45. gr. að í stað þess að læknum sjúkratryggingastofnunar eða tannlæknum, þegar það á við, sé heimilt að leita upplýsinga hjá þeim sem notið hafa þjónustunnar vegna eftirlitshlutverks stofnunarinnar og skoða þann hluta sjúkraskrár sem nauðsynlegt er vegna eftirlits með samningum verði þessi heimild til handa læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum innan stofnunarinnar. Með því er t.d. átt við að sjúkraþjálfarar hafi eftirlit með sjúkraþjálfurum o.s.frv. Meiri hlutinn leggur auk þess til að við 2. málsl. 46. gr. bætist að framangreindum heilbrigðisstarfsmönnum sjúkratryggingastofnunar verði heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem nauðsynlegt er vegna eftirlits með samningum og reikningsgerð á hendur stofnuninni að auki.

Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á 48. gr. sem fjallar um vanefndir og aðgerðir vegna vanefnda, þannig að í stað orðsins „áminning“ í 2. tölul. greinarinnar komi orðið „viðvörun“. Loks leggur meiri hlutinn til lagfæringu á tilvísun í ákvæði IV til bráðabirgða en vísað er til 3. mgr. 43. gr. í stað 4. mgr. 43. gr.

Í athugasemdum við 20. gr. sem fjallar um nauðsynlegar tannlækningar aldraðra, öryrkja og barna yngri en 18 ára segir að með öryrkjum sé átt við þá sem metnir hafa verið til a.m.k. 50% örorku. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að leiðrétta þessa villu í greinargerð þar sem hér er átt við þá sem metnir hafa verið til a.m.k. 75% örorku.

Á fundum sínum ræddi nefndin um kostnaðargreiningu heilbrigðisþjónustunnar en fram kom að tilgangur frumvarpsins er m.a. að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina einstaka þætti heilbrigðisþjónustunnar ásamt því að taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgi sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Meiri hlutinn telur að með því verði skapað svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum.

Meiri hlutinn telur að með frumvarpinu sé unnt að stuðla að gæðum heilbrigðisþjónustunnar og hagkvæmum rekstri hennar ásamt því að ná hámarksgæðum eftir því sem frekast er unnt á hverjum tíma en jafnframt verði tryggt að allir hafi jafnan aðgang að henni, óháð efnahag.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Guðjón A. Kristjánsson áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Ásta Möller, Ágúst Ólafur Ágústsson, Pétur H. Blöndal, Árni Páll Árnason, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Ellert B. Schram.

Að lokum. Við umfjöllun nefndarinnar, eins og ég sagði hér í upphafi máls míns, komu fjölmargar umsagnir og er það samdóma álit langflestra, stórs meiri hluta umsagnaraðila, að þetta frumvarp sé mikið framfaraskref. Sérstaklega kom fram hjá þeim aðilum sem standa fyrir heilbrigðisstofnunum að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafa verið baráttumál og kappsmál margra heilbrigðisstofnana til þess að færa heilbrigðisþjónustuna fram á veginn.

Virðulegi forseti. Það var tekið stórt skref á síðasta ári þegar nýju heilbrigðisþjónustulögin voru samþykkt en þau lög voru afrakstur af starfi nefndar sem í áttu sæti m.a. fulltrúar allra stjórnmálaflokka. Þar var m.a. það nýmæli að settur var sérstakur kafli um samninga um heilbrigðisþjónustu sem nú er færður í hið nýja frumvarp um sjúkratryggingar. Í þeim kafla er m.a. kveðið á um samningsumboð ráðherra um heimildir hans til að skipa nefnd sem annast samningsgerð um heilbrigðisþjónustu fyrir hans hönd samkvæmt nánari ákvörðun hans. Jafnframt er þar kveðið á um að ráðherra sé heimilt að bjóða út rekstur heilbrigðisþjónustu og kaupa heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum þessum. Það frumvarp sem við nú fjöllum um er rökrétt framhald af þeim lögum sem samþykkt voru á síðasta vorþingi. Það er jafnframt í fullu samræmi við stefnu beggja stjórnarflokkanna að efla kaupandahlutverk heilbrigðisyfirvalda og ráðleggingar m.a. OECD og fjölmargra fræðimanna, að nýta hugmyndir um aðskilnað kaupenda og veitenda í heilbrigðisþjónustu og um kostnaðargreiningu í heilbrigðisþjónustu til að fá betri nýtingu á fjármagni til þjónustunnar, betri skilgreiningu á þeirri þjónustu sem veita á og bætt eftirlit með gæðum þjónustunnar.

Virðulegi forseti. Heilbrigðisþjónusta snýst fyrst og fremst um að mæta heilbrigðisþörfum almennings. Íslensk heilbrigðisþjónusta er í dag í hæsta gæðaflokki, það viljum við varðveita. Við viljum einnig búa vel að heilbrigðisþjónustunni og heilbrigðisstarfsfólki með góðri starfsaðstöðu og stuðla að frjóum og skapandi starfsanda þannig að okkar vel menntuðu heilbrigðisstéttir geti nýtt þekkingu sína og hæfni til fullnustu í þágu skjólstæðinga sinna. Ég hef trú á að það skref sem tekið er með þessu frumvarpi verði sjúklingum og fjölskyldum þeirra og íslenskri heilbrigðisþjónustu til heilla og muni þegar upp er staðið taka á ýmsum þeim annmörkum sem eru á annars góðri heilbrigðisþjónustu hér á landi í dag.