136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit væntanlega héldu formenn stjórnmálaflokkanna fund með mér í gær þar sem farið var yfir stöðu mála í þinginu. Ég lagði lista fyrir formenn flokkanna þar sem farið var yfir stöðu mála og var um að ræða 22 mál sem við lögðum áherslu á. Að auki voru fleiri mál í þinginu sem við fórum yfir líka en í stórum dráttum eru þetta um 22 mál sem við leggjum áherslu á og þar af eru um 12 mál sem snerta endurreisn efnahags- og atvinnulífs og ein fimm mál sem okkur telst til að séu enn í þinginu og snerta aðgerðir fyrir heimilin í landinu. Síðan eru það þau mál sem eru umdeild, sem hv. þingmaður þekkir, t.d. stjórnarskrármálið, mál sem snerta sérstakan saksóknara, varnir gegn sókn í skattaskjól og nokkur önnur mál. Í heildina eru þetta um 22 mál.

Við munum hittast aftur síðar á þessum degi, formenn flokkanna ásamt mér, þar sem við förum yfir stöðu mála eftir að þingflokkar hafa fjallað um þennan lista sem lagður hefur verið fram og ég tel ekki ástæðu til þess að rekja einstök mál. En þetta eru mjög brýn mál, ekki síst þau sem snerta greiðsluaðlögun fyrir heimilin í landinu, bæði samningsveðið og að því er varðar fasteignaveðlánin. Ég hlýt líka að mótmæla því sem fram kom í fréttum kl. 10 í gær hjá formanni Framsóknarflokksins að ekkert hefði verið gert frá því að ríkisstjórnin komst til valda. Ef hv. þingmaður fer yfir þann lista sem lagður hefur verið fram sér hann að lögð hafa verið fram mjög mörg mál sem snerta heimilin í landinu. Greiðsluaðlögunin er t.d. mjög mikilvæg vegna þess að hún tekur á vanda skuldugustu heimilanna, ekki bara með flatri 20% afskrift heldur með miklu róttækari hætti ef um er að ræða mikinn vanda hjá heimilunum.