136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

ASÍ.

[13:46]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og geri mér grein fyrir því að kannski er erfitt að bregðast við án þess að hafa miklar upplýsingar um málið. Það er nokkur hefð fyrir því að forustumenn og starfsfólk í verkalýðshreyfingunni taki þátt í stjórnmálastörfum og taki sæti á lista. Gylfi Arnbjörnsson er m.a. dæmi um það, hann hefur verið áberandi áhrifamaður innan Samfylkingarinnar og var m.a. orðaður við formennsku í þeim flokki um tíma og ætlaði að fara í prófkjör en hætti við. Allt gott og blessað með það. Að mínu mati er hins vegar mjög sérstakt að Vigdís Hauksdóttir sem er í Framsóknarflokknum fái ekki launalaust leyfi á meðan Magnús Norðdahl sem er í Samfylkingunni fær launalaust leyfi. Ég sé ekki annað en að þarna skipti stjórnmálaskoðanir máli, a.m.k. þarf annars að færa einhver rök fyrir því að svo sé ekki. Mér finnst grafalvarlegt ef skilaboðin frá ASÍ eru þau (Forseti hringir.) að þeir sem taka þátt í stjórnmálum séu eitthvað verri en aðrir og eigi að víkja. (Forseti hringir.) Það er grafalvarlegt og ég skora á hæstv. ráðherra að fá svör við þessum spurningum hið fyrsta. (Gripið fram í: ... BSRB.)