139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:11]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að fagna þeim mikilvæga áfanga sem virðist ætla að nást í dag. Það eru 14 ár frá því að samningurinn var undirritaður, það er dágóð meðganga. Það er auðvitað ekki bara framfaraskref í umhverfismálum heldur einnig í lýðræðismálum. Við styrkjum lýðræðið með þessu. Við styrkjum vitund almennings og upplýsingagjöf, þátttöku og möguleika hans til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Það er von mín, og ég tek þar undir með formanni umhverfisnefndar, hv. þm. Merði Árnasyni, að um málið verði góð samvinna og samstaða.

Mig langar sérstaklega að þakka fyrir ræðu hv. þm. Loga Más Einarssonar sem mér fannst vera uppbyggileg og gott að hlýða á. Hann nefndi að hann yrði ekki hér í haust þegar vinnan héldi áfram, en ég vona að sá andi sem var í ræðu hans verði með okkur, að við vinnum að þessu máli í sátt og samlyndi. Síðast en ekki síst vil ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þetta mikla framfaraskref, fyrir þá góðu og mikilvægu vinnu sem við fögnum hér og hlökkum til að halda áfram og fyrir að setja lokapunkt aftan við málið eftir 14 ára bið, það verður að veruleika á þessu ári ef fram fer sem horfir.