144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

störf þingsins.

[10:29]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil gera eins og fleiri þingmenn og þakka hæstv. forseta fyrir þá ákvörðun hans í gær að taka af dagskrá og fresta umræðu um rammaáætlun og freista þess að ná samkomulagi þar að lútandi og eins fyrir að setja hér á dagskrá fleiri mál sem þingmenn í meiri og minni hluta eru í grundvallaratriðum sammála um að hér eigi að ljúka. Ég held að sá bragur sem ríkir á þinginu nú í upphafi fundar og gerði hér seinni hluta dagsins í gær sé tákn um að við getum og eigum að starfa saman með öðrum hætti en við höfum sýnt undanfarna daga. Því vil ég þakka hæstv. forseta fyrir það og fagna ákvörðun hans. Hún var djörf en hún tókst og vonandi er hún framlag í það að við sem hér erum kjörin á fjögurra ára fresti á þessu kjörtímabili náum að vinna úr þeim verkefnum sem við blasa, án gífuryrða og ásakana hvert í garð annars.

Þar að auki held ég að öllum sé ljóst að við stöndum á tímamótum varðandi heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Það getur ekki gengið að svo sé búið um hnútana í vinnuumhverfi starfsstétta að þær fari hver af annarri í verkfall og lami með þeim hætti heilbrigðiskerfi okkar. Það er engri þjóð sæmandi og það þarf að finna leiðir til þess að auka menntun og bæta kjör í samræmi við menntun. Ekki síður þurfum við í sameiningu, opinberir starfsmenn, starfsmenn hins almenna markaðar, þingmenn og þjóðin í heild að finna góðan farveg eins og aðrar þjóðir hafa gert og hafa hrósað sér af. Vil ég því taka undir með (Forseti hringir.) hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni sem horfir til þess að við förum í sameiginlegt átak í rammaáætlun um kaup og kjör og verkfallsrétt og stöðu okkar á meðal siðmenntaðra þjóða.