144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[17:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga. Þetta er eitt af þremur frumvörpum sem eru í hálfgerðu samfloti. Hin frumvörpin tvö eru frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar og frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem verið er að sameina úrskurðarnefndir á velferðarsviði í eina úrskurðarnefnd.

Nú er svo komið að í þessum þremur málum er velferðarnefnd ekki alveg samferða. Í slysatryggingahlutanum er öll nefndin einhuga en þegar kemur að almannatryggingunum og úrskurðarnefndunum höfum við ekki verið sammála og minni hlutinn verið með sérstakt nefndarálit. Það má segja að þetta sé svolítið skrýtin staða því að í slysatryggingunum, sem ég ætla að koma nánar að rétt á eftir, væri sannarlega þörf á að gera ákveðnar breytingar, efnisbreytingar, en það er ekki gert að svo stöddu enda er hér bráðabirgðaákvæði um að endurskoða eigi lögin innan tveggja ára; þetta er eingöngu gert til að taka slysatryggingarnar út úr almannatryggingalögunum og setja í sérlög, að efnisbreytingar eigi ekki heima hér, það sé verið að breyta uppsetningu laganna og það má alveg kaupa þau rök. Það má segja: Ókei, það hefði verið betra að gera þessar breytingar núna en við skulum gefa okkur tíma í efnisbreytingarnar og taka þær að tveimur árum liðnum.

En svo kemur að frumvarpi um almannatryggingar. Þar er verið að setja markmið inn í lögin, um er að ræða tæknilegt frumvarp þar sem verið er að laga alla lagaumgjörðina en þar koma allt í einu efnisbreytingar. Þær varða meðal annars staðsetningu Tryggingastofnunar. Nú vill ráðherra fá að ákveða sjálfur hvar hún á að vera, reyndar í samráði við forstjórann. Þessi ríkisstjórn er farin að auglýsa stöður forstjóranna eftir fimm ár þó að þeir vilji ekki endilega hætta; það er búið að herða tökin á stofnunum ríkisins og sjálfstæði forstjóranna eða seðlabankastjóranna eða hverjir það eru. En það er sem sagt í samráði við slíkan forstjóra sem ráðherra ætlar að ákvarða að sú stofnun, sem fer kannski með 1/7 part af fjárlögum íslenska ríkisins, sé flutt ef svo ber undir án samráðs eða ákvörðunar þingsins; það er efnisbreyting sem meiri hlutinn er tilbúinn til að gera.

Það sama á við um það að skerða réttindi fanga. En þess ber að geta að nú stendur yfir endurskoðun á réttindum almannatryggingakerfisins. Við í minni hlutanum höfum bent á að fangar og þeirra kjör ættu að vera inni í þeirri endurskoðun enda er mjög erfitt, þegar verið er að fjalla um málefni og réttindi hóps sem er í jafnveikri stöðu og fangar eru, að hafa ekki heildarmyndina um stöðu þeirra og fara út í aðgerðir sem eru ekki ívilnandi heldur þvert á móti íþyngjandi, og það sem einu réttindatengdu breytinguna. Það fer því að vefjast fyrir manni hvort maður sé tilbúinn til að styðja frumvarp þar sem efnisbreytingar eru ekki á dagskrá en í næsta frumvarpi, sem er í sama pakka, sé sjálfsagt að gera efnisbreytingar. Það er svolítill geðþóttabragur á því. Og svo er ákveðinn ágreiningur í úrskurðarnefndunum af öðrum toga og það kemur að því ef það mál kemst hér til umræðu.

En varðandi slysatryggingarnar þá er verið að setja þær í sérstakan lagabálk. Við, fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar, undirritum þetta nefndarálit líka og erum sammála því. En mig langaði í þessari ræðu minni að koma aðeins inn á þær efnisbreytingar sem óskað var eftir, ekki síst af hálfu Vinnueftirlitsins en þó einnig af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, þær efnisbreytingar sem er nauðsynlegt að fara í í þeirri endurskoðun sem á að liggja fyrir innan tveggja ára.

Vinnueftirlitið er með veigamiklar athugasemdir, veigamiklar í þeim skilningi að þær lúta að vernd fólks á íslenskum vinnumarkaði og réttarstöðu þess og breytingum sem geta stuðlað að því að við eigum betri upplýsingar um slys og sjúkdóma og þar af leiðandi auðveldað greiningu á því hvar pottur er brotinn í öryggismálum launafólks á íslenskum vinnustöðum. Eins og Vinnueftirlitið bendir á þá er þeirra hlutverk samkvæmt lögum, meginmarkmið þeirra, að koma í veg fyrir vinnuslys og atvinnutengda sjúkdóma. En auðvitað taka lögin um slysatryggingar á því þegar eitthvað slíkt hefur orðið. Vinnueftirlitinu er líka í mun að skilgreiningarnar séu sem víðtækastar þannig að þær nái til allra þeirra líkamlegu áfalla sem fólk getur orðið fyrir við vinnu, og auðvitað hefur þetta andleg áhrif líka. Vinnueftirlitið bendir á að með því að vera með góða skráningu á vinnuslysum og atvinnusjúkdómum verði kostnaðurinn af þessu sýnilegur og það búi í sjálfu sér til hvata til forvarna.

Í öðru lagi bendir Vinnueftirlitið á að nákvæmar upplýsingar um vinnuslys og atvinnusjúkdóma séu mikilvægar og þarna tilgreina þeir til dæmis upplýsingar um fjölda slysa og orsakir og hvar þau eiga sér stað til að stofnunin geti gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að vinnuslys eða atvinnusjúkdómar endurtaki sig. Vinnueftirlitið er með ákveðna skilgreiningu á vinnuslysum í sínum kokkabókum. Ég ætla að lesa hér upp skilgreiningu Vinnueftirlitsins sem er þessi:

„Með vinnuslysi er átt við skyndilegan, óvæntan atburð í tengslum við vinnu sem veldur áverkum, heilsutjóni eða dauða eins eða fleiri einstaklinga.“

Um er að ræða skyndilegan og óvæntan atburð og eins og Vinnueftirlitið bendir á þá er þessi skilgreining í samræmi við skilgreiningu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, Evrópusambandsins og almannatryggingalaga í Danmörku. En þegar við komum að skilgreiningu laganna — og þarna kemur að hinum efnislega þætti sem þarf að breyta, segir aftur á móti:

„Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.“

Í staðinn fyrir að talað sé um óvæntan atburð þá er talað um utanaðkomandi atburð og það geta allir séð í hendi sér að mikill munur er á þessu. Þarna nefnir Vinnueftirlitið sem dæmi að þegar einhver er að setja upp hurð í nýbyggingu og þær taka á öxlina, þá er það skyndilegur óvæntur atburður en það er sannarlega ekki utanaðkomandi atburður. Í skilningi laganna er slíkt vinnuslys því ekki bótaskylt. Það eru miklir hagsmunir í húfi að breyta þessari skilgreiningu.

Vinnueftirlitið segir hér að skilgreining sem leggur áherslu á utanaðkomandi atburð útiloki á hverju ári vinnuslys þar sem ofraun verður á líkamann en þau hafa frá árinu 2007 að telja verið á bilinu 55–97 á ári hverju. Þarna er umtalsverður hópur fólks sem fær ekki bætur vegna vinnuslysa. Það gerir það líka að verkum að þegar einhver verður fyrir slysi — og það getur verið mjög alvarlegt slys þó að það sé ekki utanaðkomandi — sem leiðir til örorku þá er auðvitað verið að reyna að finna leiðir til að skilgreina fólk inn í lögin, slysin sem það hefur orðið fyrir. Vinnueftirlitið bendir á að þetta geti leitt til þess að slys vegna utanaðkomandi atburða verði ofmetin í allri tölfræði og þar af leiðandi gefið ranga mynd af þeim þáttum sem mestu skipta í slysaforvörnum.

Svo komum við að atvinnusjúkdómunum og Vinnueftirlitið vill að sett verði reglugerð sem skilgreini hvaða atvinnusjúkdómar skuli teljast bótaskyldir. Samkvæmt lögum eru atvinnusjúkdómar tilkynningarskyldir af hálfu lækna til Vinnueftirlitsins en þeir benda á að þessi tilkynningarskylda sé ekkert mjög virk og hafa áhyggjur af því að Vinnueftirlitið á Íslandi hafi á engan hátt fullnægjandi mynd af atvinnusjúkdómum og umfangi þeirra á Íslandi. Í umsögninni segir:

„Í dag hafa að meðaltali innan við 20 atvinnusjúkdómar verið tilkynntir árlega til Vinnueftirlitsins.“

Þeir bera saman íslenskan og danskan vinnumarkað, tölfræði þaðan. Auðvitað er það aldrei nákvæmt, þetta eru ekki nákvæmlega eins vinnumarkaðir. Ef við lítum til Danmerkur og tökum tillit til stærðar þá gerir Vinnueftirlitið ráð fyrir því að það séu um 250 tilvik á ári vegna atvinnutengds heilsutjóns, sem jafnvel valdi örorku, sem ekki komi inn á borð Vinnueftirlitsins. Vinnueftirlitið segir:

„Með þessu eru starfsmenn á Íslandi settir skör lægra en starfsmenn annars staðar á Norðurlöndum og í öðrum nágrannalöndum sem við viljum bera okkur saman við, þar sem virkar atvinnusjúkdómavarnir grundvallast á virku kerfi tilkynninga atvinnusjúkdóma.“

Vinnueftirlitið bendir á að til þess að örva eða auka skráningu sé mikilvægt að gera atvinnusjúkdóma bótaskylda. Þannig leiðirðu fram í dagsljósið í raun og veru öryggi og vinnutengda heilsu fólks á íslenskum vinnumarkaði og býrð til hvatana til að reyna að draga úr áhættu launafólks vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma.

Það var einstaklega fróðlegt að sitja þennan fund með Vinnueftirlitinu og það er umhugsunarefni að við skulum ekki vilja skipa okkur við hliðina á hinum Norðurlandaþjóðunum þegar kemur að atvinnuöryggi í merkingunni heilsufarslegt öryggi; við viljum ekki sitja við sama borð og aðrar Norðurlandaþjóðir. Það er eitt af því sem verður að koma inn í lögin í endurskoðuninni sem á að liggja fyrir eftir tvö ár. En við töldum að í ljósi þess að hér er eingöngu verið að breyta uppsetningunni á lögunum, þetta áttu ekki að vera efnisbreytingar, gætum við sætt okkur við þetta, vegna þess að þarna er bráðabirgðaákvæði um þessa endurskoðun.

Hér er verið að leggja til hækkun slysadagpeninga og það má segja að sú hækkun sé engan veginn fullnægjandi. Við erum að hækka upphæðina um 50 kr. á dag, að mig minnir. Ég óskaði eftir því að fá yfirlit yfir þróun slysadagpeninga frá árinu 1994 og atvinnuleysisbóta. Það var síðan borið saman við launavísitölu fyrir mig. Í ljós kemur að árið 1994 fékk atvinnulaus einstaklingur 2.141 kr. á dag í bætur en slysadagpeningarnir voru 666 kr., um þriðjungur af því. Árið 2014 voru atvinnuleysisbæturnar komnar upp í 8.500 kr. á dag en slysadagpeningar voru 1.677 og það er innan við fimmtungur. Vísitalan sem fór úr 100 upp í 397 fyrir atvinnuleysistryggingarnar fór úr 100 upp í 252 fyrir slysadagpeningana. Af einhverjum ástæðum hefur þróunin í slysadagpeningum verið allt önnur en í atvinnuleysistryggingum. Hérna er verið að hækka þetta um 50 kr., sem er nánast málamyndagjörningur en í anda þess að hækkunin hefur alltaf verið minni í slysadagpeningunum, og þetta er eitthvað sem verður líka að skoða.

Bent var á, sem er svolítið fyndið, að slysadagpeningar greiðast til einstaklinga ef laun falla niður en ef laun haldast fer greiðslan til vinnuveitenda. Þetta er fjármagnað í gegnum tryggingagjaldið og það er merkilegt að margir virðast halda að allir séu í fastri vinnu, njóti atvinnuöryggis. Það er aldeilis ekki þannig á íslenskum vinnumarkaði. Fjöldi fólks er ekki í fastri vinnu, fær ekki fasta vinnu. Fjöldinn allur af ómenntuðu fólki og hámenntuðu fólki nýtur ekki þess öryggis að eiga rétt á launagreiðslum í veikindum eða slíku. Einyrkjar og verktakar, fólk sem er í lausamennsku án þess að hafa nokkurn áhuga á því, fólk fær bara þessa slysadagpeninga af því að enginn borgar launin þess nema það sjálft með því að afla þeirra í gegnum sína vinnu; að baki er enginn vinnuveitandi sem greiðir launin. Þeir sem eru í fastri vinnu virðast halda að flestallir aðrir séu í fastri vinnu en svo er aldeilis ekki. Kjör þeirra sem ekki fá greiðslur vegna slysa, fá ekki laun frá vinnuveitanda, atvinnurekanda, hafa versnað mjög á undanförnum áratugum, voru þó ekki beysin fyrir. En það merkilega er að bætur vegna barna eru hærri í slysadagpeningunum. Þær eru 340 kr. á dag ef þú ert atvinnulaus en 376 kr. ef þú verður fyrir slysi. Það er náttúrlega ekki nokkur lógík í því og sýnir okkur að þetta þarf að endurskoða frá grunni og tryggja að atvinnusjúkdómar og slys séu skráð og fyrir komi bætur og bæturnar séu þannig að fólki sé ekki kastað út í fátækt því að auðvitað hefur það áhrif á fjárhag fólks til langs tíma þegar það verður fyrir svona miklu tekjutapi.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.