149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[19:40]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ágætu landsmenn. Nú þegar kjörtímabilið er rétt að verða hálfnað verður ekki annað séð en að valkostur um stjórnarmeirihlutann sem nú starfar hafi verið einna helst raunhæfur. Við vissum í upphafi vegferðar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að hér þyrfti að leiða saman ólíka krafta og stefnur sem í grundvallaratriðum eru ólíkar um hvernig eigi að byggja íslenskt samfélag og hvernig skuli haldið á málum. Íslenskt stjórnmálaástand rímar vel við það pólitíska umrót sem hefur átt sér stað víða um lönd á síðustu árum, höfuðpólar pólitískrar hugmyndafræði hafa slíðrað sverðin og tekist á við vandasöm og flókin verkefni á grundvelli þess að leiða saman lausnir í breiðri sátt og á grunni ólíkra sjónarmiða. Þannig hefur verið fróðlegt að fylgjast með kosningabaráttunni í Danmörku undanfarna daga þar sem pólitískir andstæðingar hafa ekki útilokað samstarf hver með öðrum að afloknum kosningum, nokkuð sem virtist fjarlægur veruleiki á tímum hefðbundinnar blokkapólitíkur.

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að nefna þetta því að vissulega er ekki sjálfgefið að samstarf líkt og það sem við höfum nú í þessari ríkisstjórn gangi upp. Samstarfið hefur gengið vel, jafnvel vonum framar, og þetta nefni ég hér í því ljósi að þegar horft er yfir þennan sal er ekki hægt að sjá að annað mynstur hafi verið mögulegt eða raunhæft í upphafi kjörtímabilsins. Hér tala stjórnarandstöðuflokkarnir út og suður og það er vandséð hvernig þeir gætu leitt fram farsælar lausnir við viðfangsefni okkar daga. Það er vandasamt að vera í stjórnarandstöðu, en þó urðu þau pólitísku tíðindi hér í dag að stjórnarandstöðuflokkarnir fylktu sér að baki Miðflokknum.

Í því stjórnarsamstarfi sem nú er er eðlilega áskorun fyrir okkur Sjálfstæðismenn að halda til haga stefnu okkar og ná henni fram. Þetta jafnvægi er kúnst og reynir á, og ég leyfi mér að fullyrða að slíkt jafnvægi hefur ríkisstjórnin að leiðarljósi og endurspeglast það kannski einna helst í þeirri glímu sem er stöðugt viðfangsefni, að stýra efnahagsmálum af festu og til farsældar.

Ríkisstjórnin steig mikilvægt skref til að greiða fyrir lausn á vinnumarkaði. Aðkoma ríkisstjórnarinnar skapar frjóa jörð fyrir ábyrgar og mikilvægar aðgerðir til að forða að hér verði hin vel þekkta kollsteypa sem við þekkjum því miður allt of vel hér á landi. Skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar bæta kjör þeirra sem lægstu launin hafa en á sama tíma er haldið vel utan um velferðarmál sem byggja að sama skapi undir hag fjölskyldna.

Skjótt skipast þó veður í lofti, við þekkjum það afar vel. Við setningu fjárlaga fyrir árið 2019 voru hagspár um ríflegan hagvöxt en nú hafa hagspár farið úr ríflega 4% hagvexti niður í 0,2% tímabundinn samdrátt, mestan samdrátt á einu ári frá árinu 1992, að undanskildum árunum í kringum fjármálahrunið. Við okkur blasir þrengri staða en enginn skellur, sterk staða í ríkisstjórn og sterk staða heimilanna í landinu sömuleiðis. Ríkissjóður hefur náð skuldamarkmiðum sínum og heimilin eru minna skuldsett en áður og það er mikilvægt. Hagvaxtarskeið taka alltaf enda og því skiptir máli að við nýttum undanfarin ár til að búa okkur undir stöðuna sem nú er komin upp. Allt bendir til þess að hér verði mjúk lending, jafnvel snertilending, sagði einhver, snertilending hagkerfisins. Ríkissjóður er í færum til að vinna á móti samdrætti en ekki ýkja bakslagið.

Það skiptir einnig máli að íslenskt atvinnulíf stendur styrkum fótum. Við skulum ekki heldur gleyma mörgum baráttumálum liðinna ára ýmissa stjórnmálaflokka, eins og hafa verið viðruð hér, um stórhækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Og hvernig væri umhorfs í íslenskri ferðaþjónustu ef hún þyrfti að glíma við slíka skattlagningu í því umhverfi sem nú er? Hefði það létt róður hennar eða hefði samdrátturinn orðið fyrr og mun harkalegri? Sem betur fer hefur ferðaþjónustan borð fyrir báru til að bregðast við áskorunum sem fylgja fækkun ferðamanna til landsins. Ef ekki væri þetta svigrúm værum við hugsanlega að tala um mun erfiðari og þyngri stöðu.

Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í efnahagsmálum hefur ríkisstjórnin nú boðað endurskoðaða fjármálastefnu, en fjármálastefna er fyrsta ríkisfjármálamál hverrar ríkisstjórnar í upphafi kjörtímabils. Við setningu laga um opinber fjármál sem nú gilda var tilurð fjármálastefnu og staða hennar mikið rædd, m.a. hvernig skuli bregðast við ófyrirséðum tekjusamdrætti, en í greinargerð með lögunum er sérstaklega getið um nauðsyn þess að endurskoða eigi fjármálastefnu ef ljóst er að ekki náist markmið hennar að fullu og sérstaklega er tiltekið í greinargerð með ákvæðum frumvarpsins, sem seinna varð að lögunum, um hvernig með skuli farið ef áföll verða í atvinnurekstri og tekjusamdráttur ríkissjóðs þess vegna.

Á sama tíma kemur ekki á óvart að minni hlutinn reyni að slá pólitískar keilur með gagnrýni á endurskoðun fjármálastefnunnar. Það er einstakt að hlusta á slíkan málflutning. Litið er fram hjá því hvernig flest meginmarkmið fjármálastefnunnar hafa náðst. Fjármálastefnan er ekki aðeins um afkomumarkmið ríkissjóðs heldur einnig skuldahlutföll og fjölmörg önnur atriði. Þessum gagnrýnisröddum er því til að svara að ríkissjóður er samfélagssjóður okkar og rekstur hans hefur aldrei verið eitthvert eyland sem ekki tekur mið af veruleika dagsins.

Sömu stjórnarandstöðuflokkar hafa flutt breytingartillögu við fjárlagagerð undanfarin tvö haust þar sem útgjöld voru sannarlega þanin og skattaálögur í hæstu hæðum, sérstaklega í formi gjalda á verðmætaskapandi atvinnuvegi okkar. Og hvar hefði þá svigrúmið verið til að takast á við höggið?

Virðulegi forseti. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nú er til meðferðar í þinginu er fjallað um mörg og mikilvæg viðfangsefni. Ég nefni hér aðeins tvö lítillega, markvissar og metnaðarfullar aðgerðir í loftslagsmálum, viðfangsefni sem ekki eru lengur stjórnmál morgundagsins heldur dagsins í dag, og næstu daga er von á metnaðarfullum tillögum um átak um hvernig styðja megi við byltingu í innviðum okkar til að takast á við orkuskipti í samgöngum.

Ég nefni einnig áskoranir sem fylgja hækkandi aldri þjóðarinnar. Ég segi að við verðum að taka til endurskoðunar það fyrirkomulag sem við höfum í dag um byggingu og rekstur hjúkrunarheimila. Við verðum að nýta betur það fjármagn sem við höfum lagt í þær byggingar og hýsa slíkan rekstur. Við verðum að endurskoða kröfur og fyrirkomulag um hvernig við stöndum að slíkum rekstri. Mögulega þurfum við að sameinast um það þverpólitískt í þessum sal að hugsa þetta allt saman upp á nýtt, hvernig við styðjum eldra fólk er heilsan fer að bila og aðstoðar er mest þörf, hefja umræðu og undirbúning við að lengja sem mest þann tíma sem fólk getur búið á eigin heimilum og láta það fjármagn, sem annars þyrfti í framtíðinni til að renna til þeirra er fengið hafa svonefnt vistunarmat á hjúkrunarheimilum, virka þannig sem stoð og aðstoð við fólk til að búa lengur á heimilum sínum.

Herra forseti. Um þessar mundir fagnar Sjálfstæðisflokkurinn 90 ára afmæli. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins tók sér fyrir hendur einstakt ferðalag á liðnum vetri þar sem við heimsóttum yfir 50 byggðarlög. Þar áttum við fundi með þúsundum manna á fundum og í heimsóknum til fyrirtækja og stofnana. Í hringferðinni minntu á sig frumkraftar pólitíska starfsins við að hitta konur og karla að ræða verkefni. Við sýndum og sönnuðum að á hverjum tíma eigum við erindi við fólkið í landinu og fólkið við okkur. Það sannaði frábær mæting og ágætar móttökur. Úr ferðalaginu tökum við skemmtilegar stundir og uppbyggilegar umræður, en umfram allt tökum við með okkur bjartsýni fólksins fyrir komandi tímum.

Ég vil nota þetta tækifæri hér til að þakka góðar móttökur. — Góðar stundir.