150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Nú er fyrirhugað að skima ferðamenn við komuna til Keflavíkur og er merkilegt að fleiri gáttir séu ekki undir, eins og kom fram í umfjöllun í Morgunblaðinu í morgun. Þar voru Akureyrar- og Reykjavíkurflugvöllur nefndir og jafnvel væri hægt að bæta fleiri völlum við. Einnig er gott að hafa í huga að Norræna kemur til Seyðisfjarðar í hverri viku og nú þegar hefur verið tilkynnt að ráðstafanir verði gerðar til að hægt verði að skima ferðamenn sem þangað koma. Það er því enn furðulegra, þar sem ferðamönnum þar í gegn mun fjölga, að lesa um uppsagnir aðstoðarmanna tollvarða á Seyðisfirði.

Fram kom í minnisblaði frá sóttvarnalækni fyrir nokkrum dögum að skimun á Keflavíkurflugvelli eigi að standa næstu sex mánuði. Það segir mér þá að ekki sé ætlast til þess að aðrar fluggáttir verði nýttar fyrir ferðamenn. Annað sem skapar óvissu er sú tilkynning forsætisráðherra að staðan verði metin á tveggja vikna fresti. Ég er ekki viss um að sú tilkynning gagnist vel þegar upp er staðið. Mér finnst enn merkilegra að ekki sé farin sú leið að ferðamenn verði skimaðir á brottfararstað þar sem þeir eru sjúkratryggðir í heimalandi og ekki síst í ljósi þess að erlendir ferðamenn án sjúkratrygginga skulda Landspítala 282 milljónir. Samtök alþjóðaflugvalla hafa bent á þessa leið og eru dæmi þess að einhver flugfélög hafi nú þegar hafið flugferðir sínar á því að skima ferðamenn áður en þeir stíga um borð.