150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Fyrirspurnir þingmanna til ráðherra geta verið mjög gagnlegar, sé vel á haldið, m.a. til að draga fram upplýsingar og vekja athygli á málum. Dæmi um tiltölulega skjótt svar sem mér hefur borist er svar iðnaðarráðherra um mat á gerðum fjórða orkupakkans. Hann liggur fyrir. Þetta eru samtals átta reglugerðir og tilskipanir. Svarið er vandað og gott en ég verð að nota tækifærið og lýsa því að það er eins og menn hafi ekkert lært af þriðja orkupakkanum í því að ekkert er minnst á það í svarinu að í undirbúningi séu lögfræðilegar álitsgerðir sem reyndust mjög þýðingarmiklar í þriðja orkupakkanum. Við getum rifjað það upp að til að mynda sú þeirra sem hvað mest var rædd hér var dagsett 19. mars 2019 og var til umræðu þá um vorið. Hér þarf að draga lærdóm af reynslunni og efna til slíkra álitsgerða hið brýnasta.

Dæmi um svar við fyrirspurn þar sem fram komu nýjar og mjög mikilvægar upplýsingar er svar hæstv. félagsmálaráðherra við fyrirspurn um skerðingar á lífeyri almannatrygginga þar sem fram kemur að nánast allir eru skertir sem til næst. Ýmis gangur er á viðbrögðum ráðuneyta við fyrirspurnum. Ýmist er það svo að óskað er eftir fresti eða að það heyrist ekki neitt frá ráðuneytum og jafnvel ekki einu sinni svo að kvittað sé fyrir móttöku.

Ég vil beina því til hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því eftir föngum að svör fáist við ósvöruðum fyrirspurnum á þessu löggjafarþingi, nú og í framtíðinni, og að þau berist innan áskilinna tímamarka.