150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[15:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta mál er að verulegu leyti til bóta og ég styð það. Mér finnst hins vegar heldur hjákátlegt af ríkisstjórn sem gefur sig út fyrir að vilja efla traust á stjórnmálum, að undanskilja sjálfa sig algerlega frá eftirliti og aðhaldi með þeim reglum sem hún er að setja. Það eykur ekki á trúverðugleika þessara reglna að ráðherrar skuli ekki sæta neinu eftirliti eða aðhaldi með því að þeir skrái rétt hagsmuni sína og sömuleiðis samskipti sín við hagsmunaverði. Þá sætir einnig furðu að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin til að koma í veg fyrir aðstoðarmenn hennar geti sótt um störf sem hagsmunaverðir strax að afloknum störfum þeirra fyrir þessa ríkisstjórn, eins og skrifstofustjórum, ráðuneytisstjórum, sendiherrum og ráðherrum er raunar óheimilt að gera, verði þetta frumvarp samþykkt.

Að því sögðu er margt til bóta og ég mun styðja þetta frumvarp og einungis sitja hjá í örfáum atriðum þar sem ég mun koma sératkvæðaskýringar. Við í minni hlutanum erum með margar breytingartillögur sem við hvetjum meiri hlutann til að samþykkja þar sem þær eru verulega til bóta.