150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[15:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Að mínu viti er hér lagt til mikið framfaraskref og hefur málið tekið umtalsverðum breytingum í vinnu nefndar. Málflutningur fulltrúa minni hlutans sýnir kannski hversu ólík sjónarmið eru um þetta mál. Sum vilja ganga lengra, jafnvel lengra en mælst er til hjá GRECO í úttektum þeirra, önnur vilja ganga skemur. Hér er verið að fara einhvers konar milliveg í þeim efnum og málið þarf að skoðast í miklu víðtækara samhengi en bara við þetta frumvarp. Það þarf að skoðast í samhengi við allt það sem lagt hefur verið til og samþykkt hvað varðar að opna á upplýsingar um skráningu. Þetta er mjög gott mál sem ég legg til að við samþykkjum.

Forseti. Ég vil að endingu segja að það að hlutir séu uppi á borðum á ekki að hafa fælingarmátt.