150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[15:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál er vel undirbyggt. Það byggir á vinnu forsætisráðuneytis en líka þeim gögnum sem við höfum safnað að okkur frá útlöndum um hvernig þetta er gert víða annars staðar í heiminum. Ég tel að þetta mál muni færa okkur mun framar þegar kemur að skráningu hagsmuna þeirra sem starfa í stjórnmálum og auka gagnsæi og traust á stjórnmálum. Ég held að það sé gott. Ég held að það virki ekki fælandi því að ég hefði haldið að öllum væri ljóst hvílík forréttindi það eru að fá að starfa í stjórnmálum. Hvílík forréttindi það eru að fá að hafa áhrif á samfélag sitt með því að sitja á Alþingi, hvað þá að taka þátt í ríkisstjórn, og um leið hefði ég talið að öllum ætti að vera ljóst að slíkum forréttindum fylgja ákveðnar skyldur og kröfur um aukið gagnsæi og skráningu hagsmuna. Í því máli tel ég að við séum að stíga mjög jákvætt skref hér í dag.