150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[15:55]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands. Hér erum við að feta okkur inn á nýjar brautir. Þetta er tímamótalöggjöf sem er, eins og hæstv. forsætisráðherra fór yfir, byggð m.a. á tilmælum frá samtökum ríkja innan Evrópuráðsins um hvernig við vinnum gegn spillingu og tryggjum traust, eða vinnum að því að byggja upp traust. Lögð voru fram tilmæli í fimm liðum sem beint var til Íslands og mætir frumvarpið akkúrat öllum þeim fimm tilmælum. Við erum að stíga mikilvæg skref og ég tel vænlegt að við tökum ekki of stór skref í einu. Ég hef meira að segja efasemdir um hvort við hefðum átt að fara í einhverjar breytingar á frumvarpinu. Við í meiri hlutanum ákváðum samt að leggja til ákveðnar breytingar, en smá og örugg skref eru mikilvæg í svona málum.