150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

þingsköp Alþingis.

840. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er réttur skilningur hjá hv. þm. Halldóru Mogensen. Ég sagði það áðan að á þessum stubbi, sem við getum kallað svo, er ætlunin að taka fyrir fjármálastefnu og það er tillaga mín að svo verði vegna þeirrar umræðu sem spannst í hópi formanna flokkanna og þeirra ábendinga sem komu frá fjármálaráði. Hins vegar vil ég halda því til haga að ef upp koma brýn mál vegna heimsfaraldursins, sem við sjáum ekki fyrir núna og eru þar af leiðandi ekki komin fram á þinginu, verði þingmenn reiðubúnir því á þeim tímapunkti, eins og raunar í allt sumar, því að ég legg líka til að við séum öll meðvituð um að það kann að þurfa að kalla þing saman, að þau mál gætu komið til afgreiðslu þá. En auðvitað vona ég að svo verði ekki. Auðvitað vona ég að við verðum ekki með einhver fleiri óvænt mál.