150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

þingsköp Alþingis.

840. mál
[16:46]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég nefndi áðan eru lagðar hér fram ýmsar sviðsmyndir um afkomu og skuldahorfur ríkissjóðs og hins opinbera. Það sem kemur fram í áliti fjármálaráðs er að við gerum vissulega ráð fyrir ákveðinni hringrás í lögum um opinber fjármál þar sem gert er ráð fyrir því að stefnan sé sett einu sinni á hverju kjörtímabili, síðan er fjármálaáætlun lögð fram og svo fjárlög. Það sem við sjáum hins vegar er að rammi þessara laga er ansi þröngur, t.d. þegar áfall verður af þeirri stærðargráðu sem við sjáum núna fram á. Ég held að niðurstaða fjármálaráðs endurspegli einfaldlega viðurkenningu á því áfalli sem við höfum orðið fyrir. Það er niðurstaða sem hv. þingmaður kann að vera ósammála en ég tek hins vegar mark á og horfi til þeirra raka sem færð eru fyrir þeirri niðurstöðu. Ég tel hins vegar að þetta kalli til lengri tíma á að við veltum fyrir okkur hvernig við getum búið enn betur um þá hringrás sem fjallað er um í áliti fjármálaráðs og lögð er til í lögum um opinber fjármál, þannig að við verðum betur í stakk búin til að takast á við slíkar sveiflur eins og við stöndum núna frammi fyrir.