154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands.

[11:07]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Þá sjaldan að maður fær góðar fréttir hérna í óundirbúnum fyrirspurnum, ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna þessu. Ég vil kannski fylgja eftir spurningu minni; hvort hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að stofnunin verði að veruleika fyrir lok kjörtímabilsins, hvort þetta frumvarp eigi að fara í gegn núna á þessu þingi eða hvort það muni bíða næsta þings.

Þá langar mig að spyrja áfram um þessa arfleifð forvera hæstv. ráðherra í tengslum við sanngirnisbætur, frumvarp um sanngirnisbætur sem virðist sömuleiðis ekki vera á mikilli hreyfingu þrátt fyrir gríðarlega mikið ákall og mikla örvæntingu fólks sem bíður lausna hvað þau mál varðar. Ég vil spyrja ráðherra hvort hann styðji frumvarpið eins og það fór til þingsins og hvernig hæstv. ráðherra telur best að klára það mál.