154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er ekki frá því að ég hafi misst þráðinn í smástund. Þegar kemur að frávísunartillögunni þá er eiginlega bara verið að biðja ráðuneytið um að henda þessu í ruslið. Ég held að þetta sé algjör óþarfi að afgreiða þetta frumvarp. Ég verð að svara þessum spurningum þannig að mér finnst hv. þingmaður snúa einhvern veginn öllu dálítið á haus og mögulega hefur það bara að gera með mismunandi heimssýn, hugmyndafræði og allt það. Hv. þingmaður talar rosalega mikið um ábyrgð. Hvaða ábyrgð eigum við að bera? Eigum við að taka meiri byrðar og meiri ábyrgð en aðrir? Þá erum við að tala um manneskjur af holdi og blóði og ég tengi ekki við það að við séum að tala um manneskjur sem einhvers konar byrði eða við séum að bera ábyrgð á þeim eins og þetta sé eitthvert vandamál sem er að koma til okkar sem við þurfum að leysa. Fólk er ekki vandamál. Þetta er það sem ég á svo erfitt með í þessari umræðu. Fólk er bara pjúra „potential“, afsakið, forseti, að ég sletti aftur. Fólk kemur hérna með sína þekkingu, sína reynslu, með sinn menningarheim og það gerir í raun og veru allt litríkara, getur gert það. En það fer rosalega mikið eftir því hvernig við tökum á móti þeim. Það skiptir ofboðslega miklu máli hvort fólk upplifir sig sem hluti af samfélaginu, sem hefur rödd, sem þykir vænt um samfélagið út af því að samfélaginu þykir vænt um það og sér að það er að koma með eitthvað ótrúlega mikilvægt til okkar sem getur bara eflt okkur öll og lyft öllu samfélaginu upp. Þannig sé ég manneskjur. Ég sé þær ekki sem vandamál. Þess vegna á ég svo erfitt með þessa umræðu, ég tengi ekki við þetta.