135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[18:57]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka það sem kom fram í máli mínu áðan að við framsóknarmenn styðjum það að hugtakið um mannréttindi komi inn í grunnskóla- og leikskólafrumvörpin. Það skiptir okkur litlu hvaðan þær breytingartillögur koma. Það verður að viðurkennast að þetta er einfaldlega okkar stefna og stefnuskrá. Við viljum að staðinn sé vörður um mannréttindi og við viljum hafa hér góða og málefnalega umræðu um mannréttindi. Ég held að það sé eingöngu til bóta að við komum því hugtaki inn í leikskóla- og grunnskólastarfið þannig að það verði hluti af uppeldi og menntun barna okkar.

Ég sagði í atkvæðagreiðslunni um leikskóla að við framsóknarmenn styddum ákvæði um gjaldfrjálsan leikskóla. Við vildum að haft yrði gott samráð við sveitarfélögin um það hvernig deila ætti þeim kostnaði og fara þyrfti vel yfir það. Í mínum huga ætti ríkið að koma verulega að því og kannski væri best að það yrði í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. En stefna okkar framsóknarmanna er gjaldfrjáls leikskóli.

Ég er líka mjög á því að grunnskólar eigi að sjá nemendum fyrir málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Því miður eru of mörg dæmi þess að börn foreldra sem ekki hafa mikið á milli handanna sitji úti í horni og séu skilin út undan einfaldlega vegna þess að þau hafa ekki efni á að greiða fyrir máltíð. Það er sárt að horfa upp á slíkt og það eru mörg dæmi þess að kennarar hafi greitt skólamáltíðir fyrir þessa nemendur. Við eigum einfaldlega að beita okkur fyrir því að koma í veg fyrir þetta. Grunnskólinn á að vera gjaldfrjáls frá A til Ö. Það hafa orðið breytingar í þá átt að lengja viðveru. Við viljum hafa samfelldan skóladag og þá eigum við að sjá til þess að allir, burt séð frá efnahag og stöðu foreldra, geti notið grunnskólamenntunar og alls þess sem grunnskólinn hefur upp á að bjóða.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp. Það náðist mikil og góð samstaða um frumvarpið í nefndinni. Ég verð samt að viðurkenna að það kemur mér nokkuð á óvart að Samfylkingin sem ég hélt að væri á þessari línu, einhvern tímann minntust samfylkingarmenn á prinsipp um gjaldfrjálsan leikskóla en á þau prinsipp hefur sjaldan verið minnst í umræðunni og ætli þau séu ekki dauð eins og margt annað sem Samfylkingin lofaði fyrir kosningar en hefur nú tækifæri til að efna. Þjóðin stendur frammi fyrir því að Samfylkingin eða ríkisstjórnin segist vera að vinna að hinu og þessu en er að gera annað. Ég held að það sé afar slæmt fyrir þjóðina.