136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

vinnuhópur um eftirlitshlutverk þingsins o.fl.

[13:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Mér finnst þetta, virðulegi forseti, óþarfaviðkvæmni hjá hv. þingmanni og fyrrverandi forseta Alþingis. Málið liggur einfaldlega þannig að í verkáætlun ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að endurskoða skuli lög um ráðherraábyrgð. Eins og hv. þingmaður nefndi, er starfandi nefnd sem er að fara yfir eftirlitshlutverk þingsins, það er alveg rétt. Við vissum af henni og töldum rétt, í stað þess að skipa sérstakan vinnuhóp í það að endurskoða lög um ráðherraábyrgð og landsdóm, að óska eftir því að þessari nefnd yrði sérstaklega falið að skoða lög um ráðherraábyrgð og landsdóm í þeirri vinnu sem hún er í og hafa hliðsjón af hliðstæðum lögum í nágrannalöndunum. Hér voru ekki settar fram neinar kröfur af hálfu forsætisráðuneytisins, heldur einungis ósk um að nefndin mundi sérstaklega skoða lögin um ráðherraábyrgð sem ég veit ekki hvort var sérstaklega getið um, held þó ekki, í því bréfi sem þessir sérfræðingar fengu frá forsætisnefnd, að því er varðar vinnu nefndarinnar.

Ég taldi bara eðlileg vinnubrögð að nefndin sem væri að skoða þetta væri með þetta verkefni, lögin um ráðherraábyrgð, sem er á verkáætlun ríkisstjórnarinnar í stað þess að setja nýja nefnd í málin. Ég tel það bara eðlileg vinnubrögð og skil ekki í þessari viðkvæmni hv. þingmanns í þessu efni.