136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

vinnuhópur um eftirlitshlutverk þingsins o.fl.

[13:58]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki enn þá af hverju hv. þingmaður ber málið svona fram. Það er ekkert sem meinar ríkisstjórn að láta endurskoða lög, hvort sem það eru lög um ráðherraábyrgð (Gripið fram í.) eða eitthvað annað. Framkvæmdarvaldið undirbýr líka frumvörp sem eru lögð fyrir Alþingi, eins og hv. þingmaður veit. Ég skil ekki af hverju hv. þingmanni finnst sérkennilegt verklag að við vísum þessu máli til þessarar nefndar (Gripið fram í.) frekar en að setja nýja nefnd sérstaklega í þetta mál. Ég get upplýst hv. þingmann um það að áður en við sendum þetta bréf töluðum við við formann nefndarinnar um þetta mál vegna þess að við ætluðum að setja sérstaka nefnd í málið. Niðurstaðan varð sú að þau vinnubrögð væru miklu eðlilegri að ríkisstjórnin afgreiddi þetta mál, sem er í verkáætlun, frá sér með þessum hætti og þá kæmi líka fram (Forseti hringir.) hvaða áherslur hún hefði í málinu og (Forseti hringir.) m.a. væri höfð hliðsjón af sambærilegum lagaákvæðum annars staðar á Norðurlöndunum.