139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[12:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir ræðuna. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvernig hagað hefði verið samráði við þá aðila sem telja má að eigi hagsmuna að gæta í þessum efnum. Nú er um að ræða mál sem bæði hefur ákveðna staðbundna skírskotun — þá er ég að hugsa um sveitarfélög og landeigendur á því svæði fyrir austan þar sem hreindýraveiðar eru stundaðar — og eins varðandi samtök skotveiðimanna, en í hópi þeirra hefur verið mikill og vaxandi áhugi á veiðum. Þá má jafnframt benda á samtök leiðsögumanna sem hafa mikla hagsmuni en um leið mikla þekkingu á þessu sviði.

Það eru fyrst og fremst þessi atriði, hæstv. forseti, sem ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um að þessu sinni, hvernig samráðinu hefði verið háttað og hver væru viðbrögð mismunandi hagsmunaaðila til frumvarpsins.