139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:00]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um losun gróðurhúsalofttegunda. Með frumvarpi þessu er stigið fyrsta skrefið til innleiðingar reglna um viðskiptakerfi Evrópusambandsins sem er hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Frumvarpi þessu er ætlað að innleiða annars vegar tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda, oft nefnd móðurtilskipun viðskiptakerfisins, og hins vegar tilskipun 2008/101/EB sem breytir tilskipun 2003/87/EB og fellir flugstarfsemi undir gildissvið hennar.

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda var komið á fót árið 2005 en viðskiptakerfið er meginstjórntæki ESB á sviði loftslagsmála. Því er ætlað að mynda hagrænan hvata til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda þannig að fyrst verði dregið úr losun í þeim geirum þar sem það er fjárhagslega hagkvæmast. Losunarheimildum er að hluta til úthlutað ókeypis og að hluta til verða þær boðnar upp. Fyrirtæki geta selt umframheimildir á markaði eða keypt sér viðbótarheimildir ef upp á vantar.

Tilskipun 2003/87/EB var tekin inn í EES-samninginn árið 2007 og EFTA-ríkin hafa verið formlegir aðilar að kerfinu frá 2008. Þar sem sú starfsemi sem fallið hefur undir kerfið hingað til er mjög umfangslítil á Íslandi, þ.e. orkuframleiðsla úr jarðefnaeldsneyti, hefur þátttaka Íslands hingað til takmarkast við upplýsinga- og skýrsluskil til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Nú liggur fyrir að miklar breytingar verða á viðskiptakerfinu á næstu árum þar sem flugstarfsemi verður felld undir kerfið frá 1. janúar 2012 og frá 1. janúar 2013. Þá víkkar gildissvið viðskiptakerfisins bæði hvað varðar tegundir starfsemi sem undir það falla og tegundir gróðurhúsalofttegunda sem það nær til. Með þessum breytingum mun viðskiptakerfið hafa mikil áhrif hér á landi. Til viðbótar við flugstarfsemi sem fellur undir kerfið frá og með 1. janúar 2012 mun stór hluti iðnaðarstarfsemi hér á landi sem losar gróðurhúsalofttegundir, svo sem álframleiðsla, falla undir kerfið frá 2013.

Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er farin sú leið að leggja til breytingar á lögum nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda en þau lög kveða að hluta til á um sömu skyldur og settar eru fram í tilskipun 2003/87/EB. Helstu nýmæli sem felast í frumvarpinu eru þau að starfandi iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfið frá og með 1. janúar 2013 er gert skylt að hafa losunarleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út. Losunarleyfi þetta er forsenda þess að viðkomandi fyrirtæki geti sótt um og fengið úthlutað ókeypis losunarheimildum fyrir tímabilið 2013–2020. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að bætt verði við lögin nýjum kafla um losunarheimildir flugrekstraraðila. Kaflinn gildir um þá flugrekstraraðila sem falla undir umsjón íslenska ríkisins og í honum er kveðið á um skyldu flugrekstraraðila til að skila inn losunarheimildum árlega sem svarar til losunar þeirra árið á undan, ókeypis úthlutun og uppboð losunarheimilda og skyldur flugrekstraraðila til vöktunar og skýrslugerðar um losun gróðurhúsalofttegunda.

Þá er gert ráð fyrir nokkrum breytingum til þess að víkka út gildissvið laganna þannig að þau nái til þeirrar nýju starfsemi sem falla mun undir viðskiptakerfið. Gert er ráð fyrir því að Umhverfisstofnun beri sem áður ábyrgð á framkvæmd laganna og geti lagt á sektir séu ákvæði þeirra um skil á losunarheimildum og losunarskýrslum ekki virt.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið hér meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.