139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:09]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek að mér að bera boð til Brussel í næstu ferð.

Þingmaðurinn spyr um það þegar um er að ræða annars konar eldsneyti sem knýr áfram stóriðju en hér er. Það er auðvitað svo að viðkomandi þurfa sérstakar losunarheimildir fyrir kolefnislosandi eldsneytisframleiðslu þannig að af sjálfu leiðir þegar á heildina er litið að um meiri kolefnislosun og meiri heildarkostnað að því er varðar losun er að ræða.

Þingmaðurinn spyr líka eða hvetur mig til dáða að því er varðar það að bindingin nái líka máli í þessu samhengi öllu saman. Nú er það svo að eitt mikilvægasta framlag Íslendinga til umræðnanna um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda er að endurheimt votlendis verði tekin gild sem loftslagsaðgerð. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur vegna þess að við eigum þar mjög mikil tækifæri.

Hins vegar er það auðvitað svo þegar á heildina er litið, af því að ég veit að þingmanninum er annt um heildarsýnina, að losun gróðurhúsalofttegunda er fyrst og fremst alheimsmál eða glóbalmál sem þjóðir heims þurfa allar að taka til skoðunar og það þýðir, alveg sama hvernig á það er litið, breytta lifnaðarhætti fyrir Vesturlönd á næstu áratugum. Það er verkefni sem ekki er verið að taka á með þessu frumvarpi eða yfirleitt með þeim aðgerðum sem við erum að grípa til núna nema í smáum skrefum. Stóra verkefnið er það að þjóðir heims sammælist um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda svo um muni.