140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn talaði um að hann væri á móti þessari breytingu, á móti því sem hér er verið að leggja fram. Ég get tekið undir það með honum, í það minnsta er mjög bratt farið. Ég er býsna upptekinn af því sem mér sýnist, að ríkið sé með þessu að leggja sérstakan skatt á hluta af Íslendingum, á hluta af fyrirtækjum í landinu. Skatturinn kemur klárlega mismikið niður á landsbyggð og höfuðborg svo ekki sé dýpra í árinni tekið og mun að sjálfsögðu hafa áhrif á rekstur þessara fyrirtækja í heild, þar á meðal koma niður á launum sjómanna og annarra þegar fyrirtækin þurfa að draga saman til að mæta þessum aukna kostnaði. Það held ég að allir sjái, líka verkafólk í fiskvinnslu. Það er eðli þeirra sem standa í rekstri að mæta þeim kostnaði sem kemur upp.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í hvort það geti í raun verið eðlilegt að leggja á sérstakan skatt með þessum hætti sem kemur í 85–90% tilvika niður á landsbyggðinni sem nú þegar á í vök að verjast til að geta hreinlega staðið undir þeim væntingum sem íbúar þar gera. Restin er skattur á höfuðborgarsvæðið sem mun að sjálfsögðu ekki síður hafa mikil áhrif þar. Ef fyrirtækin þurfa að draga saman, hvort sem það er úti á landi eða í Reykjavík eða á öllu höfuðborgarsvæðinu, þá hefur það mikil áhrif á höfuðborgarsvæðið því að 80–90% allra fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn eru á því svæði. Mér finnst eins og bæjaryfirvöld á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki tekið eftir því hvernig atvinnulíf þeirra er byggt upp.