149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:04]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Kæra þjóð. Við stöndum á krossgötum. Við stöndum frammi fyrir vali. Undanfarin misseri, ár og áratugi hafa orðið gríðarlegar breytingar á samfélagsgerðinni. Samskiptamátar hafa breyst og internetið hefur sítengt okkur hvert öðru. Aðgengi okkar að upplýsingum er meira en nokkru sinni fyrr. Stjórnvöld eiga erfiðara með að stjórna samfélagsumræðunni. Flokksblöðin gömlu eru við það að skilja varanlega við stjórnmálaflokkana sem þau tilheyrðu og gagnsæ stjórnsýsla er talin eftirsóknarverð. Þrátt fyrir þetta hefur traust á stjórnmálum ekki aukist heldur minnkað. Getur verið að gagnsæi dragi úr trausti á stjórnmálunum eða hefur það einfaldlega svipt hulunni af djúpstæðum langvarandi vandamálum sem stjórnvöld neita að horfast í augu við?

Traust til lýðræðislegra stofnana er í lágmarki og á það ekki síst við um Alþingi. Undanfarna mánuði hafa hneyksli og áfellisdómar dunið á Alþingi hver á eftir öðrum, akstursgreiðslumálið, Klaustursmálið, óviðeigandi hegðun þingmanna og óviðeigandi pólitísk afskipti af siðareglumálum.

Síðasta haust sameinuðust Íslendingar um að krefjast afsagnar þingmanna sem höfðu uppi dólgslæti og montuðu sig af spillingaráformum. En mörgum mánuðum síðar hefur ekkert gerst, ekki annað en það að sú kona sem upplýsti um samtalið hefur verið úrskurðuð brotleg við persónuverndarlög eftir harða aðför þessara þingmanna að trúverðugleika hennar og persónu. Að sama skapi hefur þingkonan sem upplýsti um mikilvægi þess að hefja rannsókn í akstursgreiðslumálinu verið úrskurðuð brotleg gagnvart siðareglum fyrir það eitt að benda á að forsendur séu fyrir því að rannsaka málið.

Áherslan er augljós. Það á að laga ásýnd Alþingis frekar en að laga Alþingi. Baráttan snýst um að verja valdið og sannfæra alla um að í því felist virðulegur stöðugleiki. En þessi nálgun mun ekki virka vegna þess að hulunni hefur verið svipt af. Þetta er ekki stöðugleiki og almenningur veit það. Það að aðrar reglur gildi fyrir æðstu valdhafa samfélagsins en almenning í landinu er óásættanlegt og nokkuð sem við verðum að uppræta. Áframhaldandi samtrygging og ábyrgðarleysi grefur undan virðingu Alþingis frekar en að auka hana. Engin hefð er fyrir afsögn þingmanna og geta þeir því setið sem fastast þrátt fyrir skýran vilja almennings um afsögn og þrátt fyrir augljóst tilefni til þess.

Forseti. Ástæðan fyrir því að fólk ber lítið traust til Alþingis er sú að stjórnmálastéttin hefur sýnt að henni er ekki treystandi til að fara með völd. Henni er ekki treystandi til að setja hag þjóðarinnar umfram eigin hag. Stjórnmálamenn hafa ítrekað sýnt það í aðdraganda kosninga hversu tilbúnir þeir eru til að lofa öllu fögru til að halda völdum en treysta svo á gleymni almennings frekar en að efna loforðin.

Fulltrúar allra flokka sem sæti eiga á Alþingi lofuðu því t.d. í aðdraganda kosninga að afnema krónu á móti krónu skerðingar öryrkja en þegar færi gafst á því að afgreiða þingmál þess efnis úr velferðarnefnd í lok síðasta árs var málið svæft í nefndinni af þingmönnum meiri hlutans og þar situr það enn fast.

Stærsta skrefið í átt að því að endurreisa traust til Alþingis er líklega það að efna stærsta svikna loforðið. Árið 2012 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort hér skyldi taka gildi ný stjórnarskrá byggð á tillögum stjórnlagaráðs. Tveir þriðju kjósenda, yfirgnæfandi meiri hluti, lýstu því yfir að svo skyldi verða. Nú, um sjö árum seinna, er nýja stjórnarskráin enn ofan í skúffu ríkisstjórnarinnar. Það þótti mikilvægara að mynda þessa margumræddu breiðu stjórn frá vinstri til hægri en að efna loforðið við þjóðina um nýja stjórnarskrá. Það þótti mikilvægara að leiða Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda þrátt fyrir öll þau ótal spillingarmál sem hann hefur komið að á nýliðnum árum og þrátt fyrir andstöðu hans við nýju stjórnarskrána og aðgerðir gegn henni. Það þótti mikilvægara en að efna loforðið við þjóðina um nýja stjórnarskrá.

Skortur á aðgerðum til að auka traust felur í sér gríðarlega hættu. Mikið vantraust til stjórnmála, stjórnmálamanna og lýðræðislegra stofnana getur verið undanfari þess að lýðræðisleg gildi víki fyrir stjórnlyndum þjóðernispopúlisma. Ég hef áhyggjur af þessari þróun, ég hef miklar áhyggjur af henni. Ég hef sérstaklega áhyggjur af því hvernig við bregðumst við þessari þróun því að tilhneiging okkar hefur verið sú að ráðast beint gegn þessum öflum með því að setja tjáningarfrelsinu þrengri skorður, með því að reyna að þagga niður umræðu sem okkur þóknast ekki. Staðreyndin er hins vegar sú að þöggun nær sjaldnast markmiði sínu heldur nærir frekar og valdeflir þær raddir sem á að þagga.

Forseti. Hlutverk okkar þingmanna er að hlusta á raddir almennings, gefa áhyggjum þeirra gaum, stuðla að upplýstri umræðu og vinna að lausnum með gagnsæjum ferlum og með skýrri aðkomu almennings. Eitt af meginhlutverkum stjórnvalda er að tryggja jarðveg eða þennan örugga grunn sem gerir okkur kleift að þróa samfélag sem byggist á trausti og samvinnu.

Við stöndum frammi fyrir gríðarstórum og flóknum verkefnum sem krefjast þess að við leysum þau í sameiningu; loftslagsbreytingar, tæknibreytingar, sívaxandi ójöfnuður, fátækt, heilsufarsvandamál, þunglyndi, ofbeldi, tilgangsleysi og fjöldinn allur af flóknum viðfangsefnum sem við getum ekki brugðist við með ásættanlegum hætti ef við sem semjum og mótum leikreglur samfélagsins erum gjörsamlega ófær um að sinna því hlutverki af heilindum og í þágu almennings, sér í lagi ef við hunsum áfram þær leikreglur sem þjóðin setti okkur með nýrri stjórnarskrá.

Kæra þjóð. Þið eruð stjórnarskrárgjafinn og það er okkar að framkvæma ykkar vilja við gerð grunnsamfélagssáttmálans okkar. Það er mín von að okkur auðnist að framkvæma þann vilja sem allra fyrst til að við höfum öll betri leikreglur, þing sem þjóð, til að leysa saman úr áskorunum framtíðar. Við lítum á það sem verkefni okkar Pírata að framkvæma með gagnsæi og heiðarleika að leiðarljósi og það verður það áfram þar til markmiðinu er náð. — Gleðilegt sumar.