149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Verkefni okkar á Alþingi eru fjölmörg og mikilvægt að við sinnum þeim af alúð, stórum sem smáum. Mest um vert er þó að ákvarðanir okkar skapi jákvæð skilyrði til framtíðar fyrir alla landsmenn, atvinnulíf og heimili, að við vinnum saman að því að móta jöfn tækifæri fyrir alla til að nýta krafta sína, tækni og hugvit til framfærslu og framfara fyrir land og þjóð.

Kraftmikið, samkeppnishæft atvinnulíf er okkar keppikefli því að það fer ávallt saman við og er í senn forsenda lífsgæða og bættra lífskjara. Blómlegt og framsækið atvinnulíf um allt land, skynsamleg og sjálfbær nýting auðlinda, verðmætasköpunin sem af því hlýst og þá um leið möguleikinn til að hlúa að þeim sem á þurfa að halda, að búa hér öllum gott, barnvænt samfélag og efla velferð á öllum sviðum — það er þess vegna sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur áherslu á þróttmikið efnahagslíf, til þess að treysta megi til framtíðar atvinnulíf, vöxt verðmætasköpunar og velferð, að leggja grunn að félagslegum stöðugleika og auknum lífsgæðum fyrir komandi kynslóðir.

Þessi stefna rímar vel við áherslur og stefnu Framsóknarflokksins. Framsýni, samvinna og samstaða einkennir störf ríkisstjórnarinnar. Það er ánægjulegt og vissulega forréttindi að fá tækifæri til að styðja þessa ríkisstjórn og vinna með samhentum hópi ráðherra og þingmanna að framfaramálum.

Góðir landsmenn. Traust ríkisfjármál eru ein af undirstöðum efnahagslífsins og drifkraftur þess að sækja fram. Í stefnumótandi lagaramma um opinber fjármál eru ríkisfjármálin í raun viðvarandi viðfangsefni og kannski þess vegna ekki alltaf það mál sem hæst fer, en samt stöðug vinna, og fjárlög næsta árs eru fyrsta dagskrármálið sem við tökumst á hendur á hverju þingi. Ábyrg sókn á traustum grunni einkennir fjárlögin sem við samþykktum í desember sl. Þau endurspegluðu aukinn hagvöxt á umliðnum árum, eitt lengsta vaxtarskeið í hagsögunni, þar sem áfram er haldið á þessu ári að byggja upp samfélagslega innviði á sama tíma og greitt er af skuldum og með því dregið úr vaxtabyrði ríkissjóðs — peningum sem sannarlega er betur varið í þjóðhagslega mikilvæg verkefni. Þannig byggja fjárlögin á traustari grunni en við höfum búið við um langt skeið. Því er mögulegt að sækja fram á fjölmörgum sviðum, fara í fjárfestingar og bæta í fjölmarga málaflokka þar sem myndast hefur uppsöfnuð þörf. Ég nefni stóraukin framlög til samgöngumála og fjarskipta þar sem uppsöfnuð viðhalds- og nýfjárfestingarþörf er hvað mest, til heilbrigðis- og velferðarmála, menntamála, nýsköpunar og rannsókna og umhverfis- og loftslagsmála.

Virðulegi forseti. Við segjum gjarnan að ein af meginforsendum framtíðarhagvaxtar og samkeppnishæfni atvinnulífsins sé fjárfesting í menntun, nýsköpun og rannsóknum. Framlög til nýsköpunar og rannsókna eru stóraukin, um 31% að raungildi næstu fimm árin, og þá má segja að ráðherra hafi komið mennta- og menningarmálum vel á dagskrá með auknum framlögum og í formi fjölmargra aðgerða. Ég nefni hér stuðning við bókaútgáfu og stefnumótun til eflingar íslenskri tungu.

Góðir landsmenn. Auðvitað er það ekki svo að ríkisfjármálin ein og sér ráði sveiflum eða efnahagslegri stöðu þjóðarbúsins. Heimili og fyrirtæki hafa nýtt stöðuna og sýnt ráðdeild, aukið sparnað og dregið úr skuldsetningu, þ.e. að heyra og sjá aukinn skilning fyrir óhjákvæmilegu samhengi ríkisfjármálastefnu stjórnvalda, sjálfstæðrar peningamálastefnu og vinnumarkaðar. Sameiginlegur víðtækur skilningur á þessum þremur meginsviðum íslensks efnahags er til þess fallinn að varðveita þann efnahagslega árangur sem náðst hefur, að viðhalda háu atvinnustigi og auknum kaupmætti í takti við verðmætasköpun og framleiðni.

Vinnumarkaðurinn, Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin, mætti þessari áskorun með afgerandi hætti og tímamótasamningum, lífskjarasamningunum. Það gerðist með nauðsynlegri aðkomu og stuðningi stjórnvalda.

Ríkisstjórnin hefur með virku samtali í langan tíma í aðdraganda samninga gert ráð fyrir þeirri aðkomu í sínum áætlunum. Samningarnir leggja frekari grunn að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Í þeim felst aukinn jöfnuður þar sem áherslan er á tekjulægri hópa og barnafjölskyldur með skattkerfisbreytingum og lægri sköttum, hækkuðum barnabótum, lengra fæðingarorlofi og hærri orlofsgreiðslum. Samanlagt geta til að mynda ráðstöfunartekjur fjögurra manna fjölskyldu aukist um 411.000 kr. á ári.

Þá eru fjölmargar lausnir á sviði húsnæðismála: Aðstoð við fyrstu kaup, aukið framboð á félagslegu húsnæði, nýting séreignarsparnaðar og tilgreindrar séreignar — svissneska leiðin hefur hún verið kölluð — endurskoðun á húsnæðislið vísitölunnar og verðtryggingar sem við Framsóknarmenn fögnum alveg sérstaklega og höfum barist fyrir lengi, að óverðtryggð lán verði valkostur fyrir alla.

Góðir landsmenn. Mér endist hvorki tími hér til að telja upp öll þau mál sem eru á dagskrá þessa þings, afgreidd sem óafgreidd, né þau verkefni sem eru á borði ráðherranna, enda málefnasvið ríkisfjármála 34 og málaflokkarnir yfir 100. Fyrir liggur hér á lokametrum þingsins að afgreiða ríkisfjármálaáætlun 2020–2024. Nýjustu vendingar í efnahagsmálum birtast í spá Hagstofunnar og breyttum forsendum, í snöggri niðursveiflu vegna samdráttar í ferðaþjónustu og loðnubrests.

Í gildandi stefnu ríkisstjórnarinnar er við aðrar hagvaxtarforsendur markmið um að skila í afgang 1% af vergri landsframleiðslu, tæpum 30 milljörðum. Lífskjarasamningarnir eru gífurlega mikilvægt innlegg og gefa svigrúm til vaxtalækkunar Seðlabankans sem um leið er merki um aukinn styrk hagkerfisins, trúverðugleika bankans og sjálfstæðrar stefnu. Það hefur lengi verið kallað eftir því að peningamálastefna og ríkisfjármálastefna togi í sömu átt.

Virðulegi forseti. Við þessar aðstæður spyrjum við sem fyrr: Hvað er skynsamlegast að gera fyrir land og þjóð? Mér finnst svarið blasa við: Ábyrg stefna og sterk staða ríkissjóðs gerir það að verkum að við erum í færum til að halda áfram samfélagslegri uppbyggingu, að bæta í skynsamlegar innviðafjárfestingar og stuðla að sjálfbærum hagvexti til góða fyrir alla landsmenn. — Góðir landsmenn, gleðilegt sumar.