149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:30]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Efnahagslegur árangur okkar Íslendinga á síðustu árum er óumdeildur og langt umfram það sem nokkurn gat dreymt um þegar fjármálalegar hörmungar riðu yfir landið undir lok árs 2008. Þrátt fyrir að tímabil mikils hagvaxtar sé að baki getum við verið bjartsýn. Staða ríkissjóðs er sterk. Eiginfjárstaða heimilanna hefur gjörbreyst til hins betra og sömu sögu er að segja um fyrirtækin.

Það eru áskoranir að glíma við tímabundinn samdrátt en um leið verða til tækifæri. Við þurfum sameiginlega að gera auknar kröfur til ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja um hagkvæman rekstur, skilvirka og góða þjónustu, að farið sé betur með sameiginlega fjármuni. Lækkun tekjuskatts einstaklinga er skynsamleg og hleypir auknu súrefni inn í efnahagslífið. Hið sama á við um lækkun skatta á fyrirtæki. Slakann í hagkerfinu á að nota fyrir ríkið til að ráðast í arðbærar fjárfestingar og fjármagna m.a. með því að umbreyta eignum í samfélagslega innviði og leggja grunn að nýju hagvaxtartímabili.

Ég hef orðað þetta þannig að það eigi að umbreyta fjármunum sem eru fastir í bönkum, flugstöð, fjölda fasteigna og jarða og í fyrirtækjum í samkeppnisrekstri yfir í aðrar eignir sem við teljum mikilvægari fyrir samfélagið. Við eigum að sameinast um að leysa þessa fjármuni úr fjötrum og umbreyta í vegi, brýr, göng, hafnir, innanlandsflugvelli, heilbrigðisstofnanir og skóla.

Lífskjör okkar ráðast ekki aðeins af því hvað er eftir í launaumslaginu þegar við erum búin að greiða okkar skatta og gjöld heldur ekki síður af því hvernig farið er með sameiginlega fjármuni okkar og eignir, hvernig til tekst um alla stjórnsýslu hins opinbera, hversu hagkvæm og góð þjónustan er. Þetta á við um allan ríkisrekstur og ekki síst um heilbrigðisþjónustu.

Við erum öll sjúkratryggð. Við eigum að njóta nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu, og við skipulag heilbrigðisþjónustunnar á réttur hins sjúkratryggða — okkar allra — að vera í forgrunni. Uppbygging og skipulag á að taka mið af þeim réttindum og þörfum einstaklinganna en ekki þörfum kerfisins. Heilbrigðisstefna sem nær ekki að byggja undir og nýta rekstur einkaaðila, styrkja samvinnu milli opinbers reksturs og einkareksturs, þarfnast vissulega endurskoðunar.

Um leið og við gerum okkur grein fyrir því að mörg verkefni eru óleyst er líka nauðsynlegt að halda því til haga sem vel hefur verið gert og hversu miklu við höfum sameiginlega áorkað á undanförnum árum og áratugum. Á Íslandi eru greidd önnur hæstu meðallaun meðal ríkja OECD. Lágmarkslaun á Íslandi eru þau þriðju hæstu í löndum OECD. Síðustu ár hefur vöxtur kaupmáttar verið mestur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Jafnrétti kynjanna er hvergi í heiminum meira en á Íslandi og Ísland leiðir í þeim efnum.

Á síðustu fimm árum hefur verðbólga aldrei farið að jafnaði yfir 3% og vextir eru í sögulegu lágmarki. Ísland er til fyrirmyndar sem hagkerfi í úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins á kvarða sem mælir ekki aðeins hagvöxt heldur ýmsa félagslega þætti og hvernig ríkjum tekst að láta sem flesta njóta efnahagslegs ávinnings og framfara og tryggja jöfnuð milli kynslóða. Ísland er í 2. sæti, fast á eftir Noregi.

Í sex ár í röð hefur viðskiptajöfnuður verið jákvæður og hrein erlend staða þjóðarbúsins jákvæð í fyrsta skipti í áratugi. Íslenska heilbrigðiskerfið er þrátt fyrir allt talið annað besta í heiminum. Ísland er öruggasta og friðsælasta land heims samkvæmt alþjóðlegum vísitölum.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi af því sem vel hefur verið gert og hvernig við sameiginlega höfum náð árangri. Við getum náð enn meiri árangri og verkefnin blasa við okkur. Sum höfum við ekki komist í að sinna og klára, þau bíða okkar hér af ástæðum sem við öll þekkjum til. Sumum þessara verkefna viljum við Sjálfstæðismenn hrinda í framkvæmd (Forseti hringir.) og þau bíða afgreiðslu, svo sem lækkun erfðafjárskatts, afnám stimpilgjalds af íbúðum o.s.frv. Þetta eru verkefni sem bíða okkar og vonandi komumst við til þeirra síðar.

Ég þakka fyrir mig. — Góðar stundir og gleðilegt sumar.