150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í fréttum 9. maí sl. segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Hreyfihamlað fólk sem pantaði sérútbúin bíl um áramót situr nú uppi með eina og hálfa milljón í aukakostnað eftir fall krónunnar. Einn þeirra segist vera í vonlausri stöðu þar sem ekki er hægt að hætta við kaupin. Landssamband hreyfihamlaðra vill að ríkið aðstoði hópinn.

Þeir sem eru mikið hreyfihamlaðir þurfa sérhannaðan sendibíl til að geta keyrt sjálfir. Þetta fólk fær styrk frá Tryggingastofnun til að kaupa slíkan bíl. Þá eru tollar og aðflutningsgjöld felld niður. Fólkið greiðir svo mismuninn sem hefur hingað til verið um ein milljón.“

Það er með ólíkindum að þessi ríkisstjórn skuli leyfa sér það, á sama tíma og verið er að bjarga öllum í Covid, að hunsa þetta Covid-mál. Þessi hækkun í hafi upp á 1,5 milljónir er Covid-mál, vegna gengis. Hæstv. ráðherra þessa málaflokks, ég veit ekki hvort hann er úti á túni eða bara hreinlega í sauðburði, lofar að svara en svarar engu. Þetta eru ekki háar upphæðir sem um er að ræða. Þetta eru ekki margir einstaklingar sem um er að ræða. Á sama tíma er verið að reyna að búa til starfsgetumat fyrir öryrkja. Það á að vera einhver lausn, en þeir þurfa þá bifreiðina til að geta komist á leiðarenda. Nei, það á bara að taka hana af þeim líka.

Ég er með einfalda lausn vegna kostnaðarins sem af þessu hlýst. Það á að senda út ferðagjöf að fjárhæð 5.000 kr. Það átti að kosta 1,5 milljarða en kemur svo í ljós að þetta kostar ekki nema 375 milljónir vegna þess að það var vitlaust reiknað eins og flest hjá þessari ríkisstjórn. Þarna eru peningarnir til að redda þessu einn, tveir og þrír, núna.