150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025.

643. mál
[15:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því hér í dag að við séum að samþykkja þessa tillögu til þingsályktunar, forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn börnum og ungmennum, og áætlun sem henni fylgir til næstu fimm ára. Ég held að þetta sé afar mikilvæg samþykkt sem hér á sér stað og góð aðgerðaáætlun sem hér er undir sem mjög margir koma að. Byggt er á þekkingu sem er til staðar og auðvitað líka nýrri þekkingu. Hér er tekið á mjög mörgum málum. Við erum líka að leggja til að ráðinn verði forvarnafulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem halda mun utan um verkefnið ásamt fulltrúum sveitarfélaga. Á hverju ári þarf að gera forsætisráðherra grein fyrir framvindu málsins, sem ég tel að sé mikilvægt eftirlitshlutverk til að fylgja því eftir að þetta nái raunverulega fram að ganga.