150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[15:44]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í gær fór fram 2. umr. í þingsal um þetta þingmál, alveg ágætisumræða. Mér fannst þó margt orka tvímælis eftir þá umræðu er varðar þetta frumvarp. Eins og ég nefndi í ræðu minni, og ég vísa til hennar að öðru leyti um afstöðu mína til málsins, tel ég að málið mætti gjarnan við meiri umfjöllun, a.m.k. í nefnd á þinginu, ef ekki í sínum föðurhúsum. Í því ljósi ætla ég að óska eftir því að þetta mál fari aftur til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og legg til að þar verði t.d. fengnir gestir eins og umboðsmaður barna til að ræða um möguleg áhrif af þessu frumvarpi á börn, við það að vera gerð að andlagi í hagsmunagreiningu foreldra sinna, vegna þess að það er algjört nýmæli í lögum hér að börnum sé blandað inn í slíka hagsmunaskráningu.