151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[13:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum lá fyrir þinginu frumvarp um breytingar á embætti landlæknis. Ein af tillögunum var sú að ekki yrði lengur talað um embætti. Embætti landlæknis átti að víkja fyrir stofnun sem héti landlæknir og lýðheilsa. Þá kom upp einn þáverandi þingmaður stjórnarliðsins, Mörður Árnason, og minnti á að landlæknisembættið hefði starfað frá 1760 og það hlyti að vera einhvers virði að verja þá arfleifð. Embætti biskups hefur verið við lýði miklu lengur, margfalt lengur en embætti landlæknis. Ég hvet hv. þingmenn til að standa vörð um þó ekki væri nema þann menningararf, hvaða skoðun sem menn hafa á trúarbrögðum.