151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í umræðunni en hann er eini Sjálfstæðismaðurinn sem tekur þátt í þessari 2. umr., meginumræðu, um hálendisþjóðgarð á Íslandi. En rök hv. þingmanns eru sérkennileg ef rök skyldi kalla. Honum varð tíðrætt um að það hefði verið hlustað. Hv. þingmaður sagði: Fólk kom með rök sín til okkar og við hlustuðum. Hann vildi þakka fólkinu fyrir að segja sína skoðun. En hvernig voru þakkirnar í raun? Það var ekkert gert með athugasemdirnar þannig að fólk neyddist til þess að bregðast við eftir að frumvarpið var komið fram og mótmæla og senda inn umsagnir sem voru óvenjumargar og óvenjuneikvæðar. Hv. þingmaður vill taka tillit til alls mögulegs núna. Það á að taka tillit til allra mögulegra hópa en það var ekki gert. Það var kannski talað við hópa en hvar sést þess staður í frumvarpinu að það hafi verið tekið mark á gagnrýni þá? Hv. þingmaður segir: Það verður að vera víðtækt samráð. Það verður að ná sátt. Allt innihaldslausir, tómir frasar sem hafa verið notaðir frá upphafi þessa máls. En það hefur bara ekkert verið gert með þá vegna þess að hæstv. umhverfisráðherra hefur sína skoðun sem er skoðun ríkisstjórnarinnar og allir aðrir eru, eins og hæstv. forseti Alþingis útskýrði, örlítill grenjandi minni hluti að þeirra mati. Því skyldu menn trúa því að eftir kosningar, þegar atkvæði kjósenda eru ekki lengur hangandi yfir stjórnarflokkunum, verði allt í einu eitthvað að marka það að þeir segist ætla að hlusta og taka tillit til allra sjónarmiða? (Forseti hringir.) Það er búið að hlusta en það er ekki búið að taka tillit til sjónarmiðanna, þar ræður bara ein sýn. Og sú sýn er í andstöðu við sjónarmið þeirra sem hafa gagnrýnt þetta frumvarp.