151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

markaðir fyrir fjármálagerninga.

624. mál
[19:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um markaði fyrir fjármálagerninga. Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um markaði fyrir fjármálagerninga öðlist gildi. Með lögunum verði ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipun 2002/92/EB og tilskipun 2011/61/ESB (MiFID2) og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 (MiFIR) innleidd í íslenskan rétt.

Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til nefndarinnar, dags. 26. maí 2021, eru lagðar til breytingar á frumvarpinu sem meiri hlutinn hefur yfirfarið og gerir að sínum. Helstu breytingar leiðir af ábendingum í umsögnum sem bárust um málið, aðrar eru til leiðréttingar og til samræmingar við önnur frumvörp á sviði fjármálamarkaðar sem nefndin hefur haft til umfjöllunar samhliða.

Þessar breytingar eru raktar í nefndarálitinu og ég ætla ekki að fara yfir þær hér og nú. Það eru efnislegar breytingar og síðan eru nokkrar tæknilegs eðlis sem er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Undir þetta rita Brynjar Níelsson framsögumaður, Óli Björn Kárason formaður, Jón Steindór Valdimarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Smári McCarthy og Þórarinn Ingi Pétursson.