151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[20:57]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það eru vissulega vonbrigði að stjórnarflokkarnir þrír hafi ekki staðið betur að vinnu þessa máls á kjörtímabilinu, ekki staðið betur með okkur sem til vorum í það verk að vinna raunverulega að því að ná sátt um þau atriði sem út af standa í þessu stóra máli.

Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson furðar sig á því að jarðarförin skuli ekki fara fram í kyrrþey. Ég vildi kannski frekar líta svo á að þetta mál sé komið í öndunarvél. Það er tilraun í boði ósamstiga ríkisstjórnar að halda málinu áfram eftir þetta kjörtímabil. Ég er ekki mótfallin því ef það þýðir að þetta mál fær þá vinnu samstiga fólks sem ætlar sér að ná árangri í þessu máli en við í Viðreisn munum sitja hjá við atkvæðagreiðsluna vegna þess að þessi niðurstaða er í boði ríkisstjórnarinnar.