154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[14:52]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir framsöguna hér áðan. Ég lít þannig á þetta mál að sumt í því sé svona tiltölulega meinlaust. Ég á mjög auðvelt með að samþykkja þessar breytingar sem á að gera á kærunefndinni. Ég get ómögulega fellt mig við þessi áform um fjölskyldusameiningarnar, svo ég nefni nú tvennt. Mig langar aðeins að koma inn á það. Nú er það þannig að þegar er verið að veita einhverjum einstaklingi viðbótarvernd þá er það gert vegna þess að aðstæður í heimalandinu eru með þeim hætti að það þykir nauðsynlegt að viðkomandi fái viðbótarvernd. Ef síðan viðkomandi þarf að bíða í tvö ár eftir því að fá fjölskylduna sína þá þýðir það það að fjölskylda viðkomandi er í þessum sömu aðstæðum í viðkomandi landi og voru grundvöllur þess að einstaklingurinn fékk viðbótarvernd, þ.e. það á að vernda einstakling frá ástandi í tilteknu landi en það er í lagi að fjölskylda viðkomandi sé í sama landi í óboðlegum aðstæðum í tvö ár. Mig langar að vita hvernig í ósköpunum menn geta séð lógík í þessu.