154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[15:23]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar dálítið til að varpa fram hérna svipaðri spurningu og hv. þm. Sigmar Guðmundsson spurði áðan hv. formann allsherjar- og menntamálanefndar, Bryndísi Haraldsdóttur, þar sem hann spurði einmitt út í fjölskyldusameiningarnar. Mér fannst þetta vera áhugaverður og mikilvægur vinkill sem snýr að einstaklingi sem kemur hingað til lands og fær viðbótardvalarleyfi, væntanlega á grundvelli ástandsins í heimalandinu sem er verið að flýja. Það er verið að þrengja að fjölskyldusameiningunni og fjölskyldan sem hann óskar eftir að sameina er stödd í sama landi og sá aðili var að flýja og fékk viðbótarvernd út af, þ.e. í hættuástandi í því landi. Svar hv. formanns allsherjar- og menntamálanefndar var að ef það er hættuástand í landinu þá geta þau komið hingað og sótt um vernd. Mér fannst þetta vera áhugavert af því að það sem er verið að segja þarna er að við viljum frekar senda börn og konur, sem eru oftast þau sem eru skilin eftir, í hættuför með smyglurum, í gúmmíbátum, til þess að sækja um vernd heldur en að gefa þeim örugga og löglega leið til þess að koma í gegnum fjölskyldusameiningar. Þetta er nákvæmlega það sem gerðist eftir að Danmörk fór þá leið að þrengja að fjölskyldusameiningum, þá margfaldaðist fjöldi barna sem voru tekin í gúmmíbáta og drukknuðu á leiðinni í leit að öryggi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um það þegar við, þjóð eins og Ísland, erum að taka þá ákvörðun að elta Danmörk á botninn þegar kemur að lagasetningu sem er svo augljóslega gölluð og afleiðingarnar eru svo augljóslega mannlegur harmleikur fyrir fólk sem er að gera ekkert annað heldur en bara að sækja sér öruggan stað til að lifa. Hvað vegur þyngra (Forseti hringir.) þegar verið er að taka svona ákvarðanir? Er það að skoða raunveruleg áhrif lagabreytinga á heilsu, öryggi og velferð fólks eða samræma bara til að samræma við einhver lönd? Af hverju? Hvað skiptir meira máli?