154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og nefndarálitið og ekki síst að það er mjög stutt og skorinort og hnitmiðað og alveg ljóst hvað Miðflokkurinn er að leggja til. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir stuðninginn við frumvarpið eins og það liggur fyrir og mér finnst mjög mikilvægt að heyra skýrt frá þingmönnum í þessum sal hvað þeir styðja og hvað þeir styðja ekki. Það er að teiknast upp einhver mynd af því. Ég veit ekki hvort ég hafi beint spurningu, þetta eru skýrar tillögur sem þarna koma fram. Ég vil bara segja að ég held að það sé mjög mikilvægt þegar að þessum málaflokki kemur að við bæði tölum auðvitað um hann af mikilli virðingu eins og umræðan var hér um í síðasta andsvari, en ekki síður líka að við þorum að taka umræðuna um þetta mikilvæga mál og það út frá staðreyndum.

Ástæða þess að þær tillögur sem hér eru hafi ekki ratað inn í frumvarpið þegar kemur inn í þingið er að þær voru teknar út eftir margar athugasemdir sem fram komu í samráðsgátt. Ég vil meina að það sé svolítið mikilvægt að nálgast þetta viðfangsefni af ákveðinni varfærni en engu að síður líka af festu og er á þeirri skoðun að þær breytingar sem við erum með hér á útlendingalöggjöfinni séu mjög mikilvægar. En það þýðir ekki að við þurfum ekki að gera aðrar breytingar síðar. Ég kannski skil það aðeins eftir hjá hv. þingmanni, hvort hann sé ekki sammála mér í þeirri afstöðu. Við sjáum að löndin í kringum okkur eru stöðugt að gera ákveðnar breytingar, bæði kannski á lögunum sjálfum en ekki síður í framkvæmd, því við vitum að þetta er ofboðslega kvikur málaflokkur og þar af leiðandi nauðsynlegt að vera vel vakandi yfir þeim áskorunum sem við glímum við í þessu tilliti.