154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég verð að segja varðandi tungumálakunnáttuna, íslenskukunnáttuna, að ég tel að eftir eitt ár, 12 mánuði, þá sé hælisleitandi eða einstaklingur sem hefur fengið alþjóðlega vernd hér og dvalarleyfi, viðbótarvernd, ekki búinn að ná neinum tökum á íslensku, ég verð bara segja alveg eins og er, ég tala nú ekki um ef hann kemur frá gjörólíku málsvæði, gjörólíkum menningarheimi. Þá verður íslenskukunnáttan mjög takmörkuð. Það tekur mjög langan tíma að ná góðum tökum á erlendu tungumáli svo hægt sé t.d. að tala við innfædda í vinnu.

Það var áhugaverð umræða hér áðan og þar hélt hv. þingmaður því fram að hann teldi að við hefðum átt að stöðva móttöku hælisleitenda eða móttöku umsókna um alþjóðlega vernd vegna ástandsins á Reykjanesi, í Grindavík sem er 4.000 manna byggðarlag, þeir hafa misst heimili sín og eru að leita að húsnæði. Ég hef verið talsmaður þess að við myndum nota landamæraeftirlit innan Schengen-rammans. Það eru níu ríki á Schengen-svæðinu sem eru að gera nákvæmlega það sama og Þýskaland tekur það sérstaklega fram að það er til að fá niður fjölda hælisleitenda, þ.e. á að taka upp innra eftirlit á landamærum sínum, öll Skandinavía, Þýskaland, Ítalía, Frakkland og fleiri ríki, samtals níu. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hefur hann skoðað þetta? Væri þetta innan ramma flóttamannasamningsins? Að sjálfsögðu er ákveðinn neyðarréttur til að gera þetta en veit hann til þess að önnur ríki hafi gert þetta?

Að lokum langar mig að spyrja hann og ég segi mína skoðun þar að ég tel að þessum markmiðum frumvarpsins verði ekki náð, það muni ekki fækka umsóknum um hæli á Íslandi, alþjóðlega vernd, og við náum ekki nægjanlegu samræmi við Norðurlöndin. (Forseti hringir.) Ég veit að það er misræmi milli Norðurlanda en við erum ekki að ná samræmi. (Forseti hringir.) Það væri mjög fróðlegt að heyra álit hans á því hvort við munum ná þessu markmiði, að í framtíðinni verði færri umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi, verði frumvarpið að lögum.