131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Flutningur launaútreikninga heilbrigðisstofnana frá landsbyggðinni.

631. mál
[14:39]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég endurtek það sem ég sagði í svari mínu, að það stendur ekki til að færa störf frá heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni hingað suður.

Hins vegar vil ég mótmæla því harðlega sem hv. 8. þingmaður Norðvest. heldur fram, að heilbrigðisráðuneytið deili og drottni í heilbrigðisstofnunum úti á landi enda gerir þingmaðurinn ekki neina tilraun til að rökstyðja mál sitt. Það er alvarlegt að fella í ræðustól sleggjudóma af slíku tagi. Í þessum stofnunum eru vissulega framkvæmdastjórnir sem starfsmenn þeirra skipa, lækningaforstjóri og hjúkrunarforstjóri eins og í öðrum stofnunum og heimamenn vinna við þessar stofnanir. Það er greið leið fyrir sveitarstjórnir á viðkomandi svæði að fylgjast með enda beinlínis kveðið á um það í þeim lögum sem um þessar stofnanir gilda. Þar eru ákvæði um að sveitarstjórnir fylgist með en vilji menn hins vegar breyta þessu og taka ábyrgð á rekstri þessara stofnana þá höfum við lýst vilja okkar til að að flytja heilsugæslu og öldrunarþjónustu til sveitarfélaganna. Ég vona að hv. þingmaður styðji það ef það yrði til þess að bjarga þeim stofnunum frá hinu voðalega miðstjórnarvaldi sem hann telur að sé í heilbrigðisráðuneytinu.