131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Vaxtarsamningur fyrir Norðurland vestra.

680. mál
[15:12]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er eitt vandamál við það að hafa vaxtarsamning fyrir þessi svæði sameiginleg. Það vill þannig til að Tröllaskagi liggur þarna á milli. Samgöngur yfir eða í gegnum eru ekki mjög góðar. Ég tel reyndar að ef menn hefðu einhverja áætlun í hendi sér um það hvernig ætti að bæta þær samgöngur gæti kannski orðið líklegra að menn fyndu leið til að koma sér niður á vaxtarsamning sem mundi skipta miklu máli. Ég er á þeirri skoðun að skoða þurfi vandlega að tengja saman Skagafjörð og Eyjafjarðarsvæðið með betri samgöngum en gert er ráð fyrir núna. Það ætti að taka inn í þessa hluti og ef menn sæju fram á það væri örugglega hægt að finna leiðir til að vinna saman fram að þeim tíma sem samgöngur batna á svæðinu.