135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

538. mál
[22:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er komið til 3. umræðu frumvarp til laga um breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti o.fl. Þetta er reyndar bandormur því að í nefndinni var svo tekin sú ákvörðun að bæta við breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki þó að sá kafli væri ekki í frumvarpinu sjálfu þegar það kom fram.

Ég hef í sjálfu sér engar athugasemdir við fyrri kaflann sem laut að lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og ekki heldur um lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, né heldur rafræna eignaskráningu verðbréfa eða lög um kauphallir. Hitt sem nefndin flutti og varðaði lög um fjármálafyrirtæki — þar var komið inn með ákvæði sem laut m.a. að því að heimila eða rýmka möguleika á samruna sparisjóða við önnur fyrirtæki og einnig samruna fjármálafyrirtækja við önnur fyrirtæki.

Þetta mál var til umræðu í nefndinni. Ég gerði þá strax fyrirvara í nefndinni því að venjan er sú að nefnd flytur ekki mál nema samstaða sé um það. Ég óskaði eftir því að kannaðar yrðu upplýsingar um það því að þær lágu ekki fyrir þegar nefndin ræddi fyrst um hvaða áhrif þetta gæti haft á stöðu sparisjóðanna. Ég hafði þann fyrirvara strax í upphafi.

Ég hef kannað þetta aðeins. Það komu að vísu umsagnir frá nokkrum aðilum, reyndar með mjög skömmum fyrirvara sem gefinn var, og frá mörgum stærri fjármálafyrirtækjum. Ég kannaði það einnig hjá minni sparisjóðum þar sem haft var á orði að þetta yrði beinlínis til þess að styrkja þá. Þá kom það fram að þeir sáu ekki að þetta mundi snerta þá svo mikið og eiginlega ekki neitt. Þegar upp hefur komið sú staða að banki hefur lagt niður útibú sitt og sparisjóður í heimabyggð hefur þá sem betur fer getað útvíkkað starfssvæði sitt, þá hefur það gengið vel. Hingað til hefur það verið gert án þess að sérstaklega þyrfti að fara út í það að kaupa útibúið. Þau rök sem færð voru fyrir því að þetta ætti að styrkja minni sparisjóði m.a. til þess að geta keypt önnur fjármálafyrirtæki eru í sjálfu sér ekki neins virði. Ég benti á að löggjafinn hefur á síðustu árum aldrei komið með neitt frumkvæði að því að setja lög sem styrkja hina minni sparisjóði. Það hefur heldur verið á hinn veginn að opnað hefur verið fyrir innrásarmöguleika fjárplógsmanna og annarra sem vilja komast yfir fé litlu sparisjóðanna.

Þær athugasemdir sem ég fékk voru þær að þetta væri greinilega eitthvað sem snerti meira hina stóru sparisjóði og þá sparisjóði sem eru í tengslum við banka, jafnvel að hluta til í eigu banka, og mundi trúlega vera runnið undan þeirra rifjum.

Lög um sparisjóði eða ákvæði í lögum um fjármálafyrirtæki sem lúta að sparisjóðum eru til endurskoðunar. Ég minnist þess að hæstv. viðskiptaráðherra sagði í útvarpsviðtali í ágúst sl. þegar þessi yfirtaka og hrina á sparisjóðum gekk yfir — yfirtaka á Sparisjóði Skagafjarðar með bolabrögðum og yfirtaka síðan á fleiri sparisjóðum, sparisjóðum á Vestfjörðum, sparisjóðum í Húnavatnssýslu og víðar — að hann hefði áhyggjur af því hvernig þau mál gengju fyrir sig. Hann ákvað þá og lýsti því yfir að skipuð yrði nefnd til þess að rannsaka og leggja fram tillögur um endurskoðun á lögum um sparisjóði, m.a. í því tilliti að styrkja þá.

Mér hefði því fundist réttara að beðið yrði með þá endurskoðun og nefndin færi ekki að hlaupa fram úr sér og koma með breytingar sem varða sparisjóðina að óathuguðu máli. Staðreyndin er sú að minni sparisjóðir sem hafa þurft að verja stöðu sína treysta hvorki Fjármálaeftirliti né stærri fjármálafyrirtækjum fyrir hagsmunum sínum. Það hefur sýnt sig og ég þekki það af eigin raun í tengslum við sparisjóði að það er ekki stuðning að sækja til Fjármálaeftirlitsins, síður en svo. Hins vegar er það orðið mjög erfitt fyrir almenna stofnfjárhafa í sparisjóðum að sækja rétt sinn. Það er dýrt að sækja mál til Hæstaréttar eins og almennir sparisjóðshafar í Skagafirði þurftu að gera þegar Fjármálaeftirlitið hafði heimilað þar óvinsæla yfirtöku og þeir sóttu rétt sinn til Hæstaréttar sem dæmdi það ólögmætt. Hinir minni sparisjóðir hafa því ekki haft mikinn stuðning frá Fjármálaeftirlitinu, síður en svo ef eitthvað er.

Sem dæmi um það er þegar Sparisjóður Skagafjarðar var sameinaður Sparisjóði Siglufjarðar og Sparisjóði Mýrasýslu á fundi á Sauðárkróki sl. sumar. Var óskað eftir áliti Fjármálaeftirlitsins þar á ýmsum miklum og alvarlegum álitaefnum sem Fjármálaeftirlitið lét hjá líða að svara eða úrskurða um en samþykkti þann samruna. Hann leit miklu frekar út fyrir að vera fullkomlega ólöglegur þannig að hinir minni sparisjóðir hafa nú ekki sótt mikinn styrk í eftirlitsstofnanir eða annað.

Þess vegna finnst mér réttara að draga það að breyta lögum um sparisjóði. Það er ekkert sem rekur á eftir því hér eða að heimila samruna þeirra við önnur fyrirtæki. Fram kom á fundi nefndarinnar í dag að það er ekkert sem rekur á eftir því, það er augljóst. Hins vegar sagði stjórnarformaður lítils sparisjóðs við mig: Það gæti verið eitthvað þarna undirmáls sem ekki er ljóst og þess vegna er þar engu að treysta.

Ég flyt auk þess breytingartillögur hér við lög um fjármálafyrirtæki þar sem ég legg til að heitið „sparisjóður“ verði lögverndað og fjármálafyrirtæki sem hafa breytt sér í bankastofnun eða horfið frá megingildum og félagslegum gildum sparisjóðanna megi ekki nota heitið „sparisjóður“ í nafni sínu. Ég tel að það væri mjög til styrktar fyrir sparisjóðina því að sparisjóðshugmyndin hefur mjög góða ímynd.

Þess vegna flyt ég þessar breytingartillögur sem eru á þskj. 1105 og auk þess legg ég til að þessi tillaga sem meiri hluti nefndarinnar flytur um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki komi ekki til atkvæðagreiðslu heldur fari hún til þeirrar nefndar sem viðskiptaráðherra hefur skipað til að endurskoða lög um sparisjóði. Ég ítreka að mér finnst óeðlilegt að mál sem flutt er af nefnd hefur ekki farið í gegnum almenna umræðu á Alþingi, 1. umr. Ég hef lagt þann skilning í að menn ættu að vera sammála um að sá háttur væri hafður á enda er ekkert sem ýtir sérstaklega á eftir þessu máli, frú forseti.