144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:14]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ræddi í gær áform ríkisstjórnarinnar um að setja meiri peninga núna í uppbyggingu ferðamannastaða og ætla ekki að hafa um það fleiri orð en get þó ekki alveg orða bundist því að það eru auðvitað engin rök að um einskiptisaðgerð sé að ræða. Ég get þá alveg sem fjármálaráðherra farið og pantað þúsund styttur sem verður dritað út um allt land og sagt að það sé einskiptisaðgerð og sett hana á fjáraukann. Það eru náttúrlega rök sem halda ekki vatni.

Það sem ég ætlaði að ræða hér er frumvarp sem Siv Friðleifsdóttir flutti þegar hún sat á þingi og er um breytt þingsköp. Ég hef mikið velt því fyrir mér að endurflytja það mál og hef rætt við Siv og við erum alveg sammála og eins fleiri þingmenn, veit ég, um að við þurfum að reyna að koma einhverjum böndum á ræðutímann, þ.e. skipuleggja hann fyrir fram þannig að starf okkar verði markvissara og reyna líka að koma í veg fyrir óþarfamálþóf, getum við sagt. Það gengur hins vegar ekki ef minni hlutinn fær engin vopn í hendur, svo ég noti líkingamál. Píratar hafa talað fyrir því að þingið geti fengið það vald að skjóta málum í þjóðaratkvæðagreiðslu, einn þriðji hluti þingmanna. Það gæti verið það vopn sem minni hlutinn þarf á að halda og mundi pína stjórnvöld hverju sinni til að setjast niður með minni hlutanum og fara yfir stöðuna og reyna að ná sátt í málum, því að það hefur nú ekki gengið svo vel að særa formenn stjórnarflokkanna til samtals við okkur eins og staðan er í dag.

Ég held að þessi tvö mál hangi saman, frumvarpið sem Siv var með sem er mjög gott, finnst mér, og hugmyndin sem Píratar hafa kannski verið hvað duglegastir við að halda á lofti, sem er að við þingmenn, Alþingi, getum skotið málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef engar áhyggjur af því að það yrði ofnotað, ég held að engin hætta sé á því, en ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki eitthvað sem við ættum að skoða og ekki bíða eftir því að einhver allsherjarendurskoðun á þingskapalögum fari fram. Það tekur allt of langan tíma.