144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:01]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir góða ræðu. Ég er sömu skoðunar og hún, ég geld varhuga við þessu frumvarpi. Ég ákvað samt, út frá sama sjónarhorni og hún bendir á í ræðu sinni, að hleypa því áfram upp á að mismuna ekki þeim fjölmiðlum sem eru hér á landi.

Það var mjög lífleg umræða í nefndinni þegar við vorum að ræða þetta mál. Á sama tíma var mikil umræða um að verið væri að selja fárveiku fólki ýmis lækningalyf sem áttu að virka. Mig langaði að spyrja, af því að við höfum oft verið að tala um að fólk viti ekki og þekki ekki aukaverkanir lyfja, hvort hv. þingmaður telji að það gæti verið til bóta að lyf væru merkt svipað og tóbaksvörur með merkingum um að þau væru ekki alveg hættulaus og misnotkun væri ekki góð.