144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hv. þingmaður útskýrir með ágætum þá klemmu sem er í því að kalla eftir ábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu og svo hins vegar það sem er undir í þessu frumvarpi, en þar er auðvitað lykilatriðið upplýsingar, að einstaklingurinn geti aflað sér viðeigandi upplýsinga um virkni og um aukaverkanir lyfja í þessu tilviki.

Hér virðist mér vera dregið úr kröfum til upplýsinga. Hv. þingmaður kom mjög vel inn á takmarkanir t.d. skjáauglýsinga í sjónvarpi, sem eru í skamman tíma, og þá reynir auðvitað á upplýsingarnar sem eru á lyfjunum sjálfum og almennum upplýsingum sem einstaklingurinn hefur aðgengi að. Það kemur jafnframt ágætlega fram í athugasemdum Lyfjastofnunar, að auka skýrleika, og hv. þingmaður kom inn á. (Forseti hringir.) Spurningin er þá í seinna andsvari: Hefði ekki verið full þörf á að auka kröfurnar til upplýsingagjafar, og hvernig hefði hv. þingmaður séð það fyrir sér?