144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[17:26]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög en þó eru sjónarmið sem mig langar til að koma á framfæri. Ég vil taka undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um að þessi umræða hafi verið góð og mótandi á viðhorf okkar að nokkru leyti. Hún færir okkur ýmsar upplýsingar og skýrir málið. Eftir umræðuna er ég sannfærður um að þetta mál eigi að bíða, það á ekki að samþykkja þessi lög núna. Ég vil taka undir sjónarmið sem hafa komið fram, t.d. hjá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur rétt í þessu þar sem hún leggur áherslu á upplýsingar í auglýsingamennsku hvað varðar lyf. Hún vísaði í landlækni sem er með ákveðin varnaðarorð gagnvart lyfjaauglýsingum og að mörg lyf séu ekki til þess fallin að bæta heilsufar almennings. En þá er hættan náttúrlega sú að auglýsandinn hafi lítinn áhuga á því að slá slíkum varnaðarorðum upp, eðli máls samkvæmt. Hann auglýsir til að koma vöru sinni á framfæri.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Haraldi Einarssyni sem nefndi þrjú meginatriði. Í fyrsta lagi sagði hann að auglýsingar væru eðli máls samkvæmt til þess fallnar að auka og örva neyslu á lyfjum, við ættum að staðnæmast við þá staðreynd.

Í annan stað hvatti hann til þess að lyfjalögin yrðu tekin heildstætt til gagngerðrar endurskoðunar og hann setti fram þá efasemd að þessi breyting, þar sem við opnuðum á auglýsingar lausalyfja í sjónvarpi, mundi greiða götu þessa. Þvert á móti ættum við að leggja frumvarpið til hliðar og ráðast þess í stað í heildarendurskoðun á lyfjalöggjöfinni og heimildum til auglýsinga.

Þriðja atriðið sem hann nefndi og ég held að skipti máli er að það er ekki sama hver miðillinn er þegar auglýsingar eru annars vegar og staðreyndin er sú að auglýsingar í sjónvarpi eru mun yfirborðskenndari en auglýsingar í prentmiðlum, svo dæmi sé tekið. Yfirbragðið er annað og skilaboðin eru önnur. Auglýsing er hvorki góð né slæm. Við höfum hins vegar góðar auglýsingar og við höfum slæmar auglýsingar. Góðar auglýsingar eru af hinu góða, einfaldlega vegna þess að þær koma þá á framfæri við okkur upplýsingum um vöru og þjónustu og það er gott fyrir okkur sem neytendur.

Auglýsingamenn í sjónvarpi hafa ekki sýnt mikla ábyrgð þegar á heildina er litið og við erum komin langan veg frá þeim áfanga sem Ralph Nader náði á 7. áratugnum þegar hann skrifaði bók sína Unsafe at any speed, óöruggir á hvaða hraða sem væri, og vísaði þar til bifreiða. Það var Chevrolet Corvair sem hann tók sérstaklega fyrir og varð frægur af í Bandaríkjunum. Hann lagði áherslu á að knýja auglýsendur til að fara að lögum og reglum, ekki einvörðungu það heldur að þeir segðu alltaf satt frá. Þegar þeir fullyrtu að þeir væru að selja bestu þvottavél í heimi væri þeim stillt upp við vegg og þeir látnir sýna fram á það. Sama gilti um þvottaefnið og hvaða vöru sem var.

Þetta hefur nokkuð skort á, að neytendasamtökum á heimsvísu hafi tekist að knýja auglýsendur og framleiðendur og sölumenn til að fara inn í þennan farveg Ralphs Naders og við eigum að styrkja neytendasamtök í því markmiði, vegna þess að við viljum hafa auglýsingar sem eru upplýsandi og góðar.

Auglýsingar sem við sjáum í sjónvarpi eru iðulega þess eðlis að mjög erfitt er að átta sig á því fyrr en alveg undir lok auglýsingarinnar um hvað hún snýst, hvað verið er að auglýsa. Það eru búin til hughrif með myndasýningum og tónum og síðan kemur í lokin að það sé þetta tiltekna kaffi sem skapi þessa vellíðan, eða hvað það nú er. Bankarnir sýna hamingjusamt fólk en segja okkur ekki til um vaxtastigið eða hver afborgunin er af lánum. Ef þeir gerðu það tæki ég slíkum auglýsingum fagnandi, góðar auglýsingar eru eftirsóknarverðar. Með því hins vegar að fara með lyfjaauglýsingar inn í sjónvarp, og þar tek ég undir með hv. þm. Haraldi Einarssyni og ítreka það aftur að miðillinn skiptir hér máli, er hætt við því að þær hafi annan boðskap að flytja en þann sem mundi birtast okkur á prentmiðli. Þar er líklegra að við fáum öll varnaðarorðin og aukaverkanirnar tilgreindar. Auglýsandinn hamast ekki á því í auglýsingu sinni í sjónvarpi að segja að þetta gæti skaðað heilsufar þjóðarinnar eða almennings, það gerir hann aldrei. Hann gerir væntanlega hið sama og bjórframleiðandinn sem beygir lögin sem við höfum til að koma bjór á framfæri í auglýsingu með því að setja í agnarsmáu letri sem enginn sér að um sé að ræða óáfengan drykk. Það er þetta sem mun gerast. Hættan er sú að það muni líka gerast með lyfin að lítið verði látið fara fyrir því sem eru hugsanlega skaðlegar aukaverkanir eða slíkar upplýsingar. Ég held að þegar við hugsum þetta mál eigum við að fara að ráði hv. þm. Haraldar Einarssonar og leggja frumvarpið til hliðar og hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra og velferðarnefnd þingsins til að taka málið slíkum tökum, fara í heildræna skoðun á málinu en láta þetta frumvarp liggja.