149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

fullgilding samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins.

773. mál
[11:08]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni kærlega fyrir andsvörin. Ég get ekki séð í greinargerð málsins og minnist þess ekki að einhverjar tölur varðandi tonn af tilteknum tegundum hafi verið nefndar. Eins og áður segir og fram kemur í nefndarálitinu er þarna einungis um að ræða svokallaða varúðarnálgun vegna þess að við vitum að lífkerfið er að breytast. Við vitum ekki með hvaða hætti og, eins og ég sagði áðan, hvaða tækifæri og áskoranir þær breytingar munu fela í sér. Þess vegna vilja menn fara varlega þar til frekari rannsóknir liggja fyrir og þekking á svæðinu þannig að mögulega sé hægt að nýta svæðið með sjálfbærum hætti þannig að náttúran skaðist með engu móti.

Það er gott að hafa þetta í huga sem þingmaðurinn nefndi og velta fyrir sér en ég held að það séu seinni tíma spurningar sem þingmaðurinn veltir fyrir sér varðandi tonn og annað. Þetta mál verður áfram á okkar borði á Alþingi. Þetta er ekki að fara neitt frá okkur þannig að ég geri ráð fyrir því að sú umræða muni eiga sér stað á einhverjum tímapunkti.