149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr, og ég þakka honum andsvarið, hvort mikilvægara sé að fjölga þeim sem hjóla eða auka öryggi hjólandi vegfarenda. Ég segi: Hvort tveggja er mjög mikilvægt.

Það sem ég fór yfir í stuttri ræðu minni var að ég geld ákveðinn varhuga við að setja þetta sem lagaskyldu upp að 18 ára aldri. Það er ekki síst til komið einmitt vegna þess að ég er foreldri og ég hjóla mikið sjálf og reyni að vera góð fyrirmynd barna minna og nota hjálm. En þegar við erum að tala um styttri og, hvað eigum við að segja, öruggari leiðir innan bæjar óttast ég að það gæti flækst fyrir okkur þegar kemur að uppbyggingu innviða fyrir hjólandi vegfarendur, og þá er ég sérstaklega að vísa í t.d. hjólaleigur, sem eru farnar að rísa hér um Reykjavíkurborg, að það verði flóknara í framkvæmd ef það er lagaskylda að nota jafnframt hjálm. En ég tek undir það, ég hvet auðvitað til hjálmanotkunar. Spurningin er hvort það þurfi lög til þess og boð og bönn, eða hvort það sé fyrst og fremst ákveðið forvarnagildi og berjast fyrir því á þeim vettvangi.

Hv. þingmaður kom inn á kolefnisskattana, ég hef vissulega staðið hér í ræðustóli og sagst styðja þá heils hugar, þá held ég að þetta hvort tveggja, þ.e. að ýta undir hjólreiðar og gera sem flestum fært að hjóla hvenær sem er og hvar sem er, og svo hitt að bregðast við þeirri miklu vá sem ríkir í umhverfismálum, það hafi að segja að leggja á kolefnisskatta og hvetja þannig til breyttra samgönguhefða eða samgönguaðferða. Bæði þessi atriði vinna mjög vel í þá átt sem við þurfum nauðsynlega að gera. Líklega er það mest aðkallandi verkefni okkar í stjórnmálum í dag að bregðast við loftslagsvánni.