149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:54]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, síðara sinni. Um leið og fagna má því að hér sé verið að gera tilraun til að marka heilbrigðisþjónustu okkar skýra stefnu til langs tíma, það er margt gott að finna í þessari stefnu, verð ég að lýsa vonbrigðum yfir í hversu óljóst og almennt orðuð þessi stefna er. Í sjálfu sér má lesa hvað sem lesenda þóknast út úr henni. Það er aldrei til góðs þegar stefnur sem þessar eru svo almennt orðaðar, sér í lagi þegar haft er í huga að þetta er hin eina eiginlega aðkoma Alþingis að forgangsröðun heilbrigðiskerfisins hvað þetta varðar. Því að á grundvelli þessarar stefnu er síðan í höndum ráðherra að leggja fram áætlanir til fimm ára í senn sem koma til þingsins einungis til upplýsingar en ekki til efnislegrar afgreiðslu eða breytinga.

Það veldur því töluverðum vonbrigðum hversu veigalitlar breytingar meiri hluti nefndarinnar gerir á stefnunni sem slíkri og sáralitlar tilraunir eru gerðar til að skerpa á þeim helstu aðfinnslum sem er að finna í umsögnum um stefnuna, m.a. í umfjöllun minni hluta.

Það sem eykur á áhyggjur mínar í þessu er sú stefna sem núverandi ríkisstjórn fylgir í heilbrigðismálum. Það er alltaf að verða skýrara og skýrara að heilbrigðisstefna núverandi stjórnvalda er stefna fyrir heilbrigðiskerfið, og þá opinbera hlutann eða ríkisrekinn hluta heilbrigðiskerfisins, en ekki fyrir notendur heilbrigðisþjónustunnar, okkur landsmenn. Ekki er hægt að leggja nægilega mikla áherslu á hversu mikilvægt heilbrigðiskerfið er fyrir okkur.

Ef við horfum á þetta í víðara samhengi rennur liðlega fjórðungur ríkisútgjalda til heilbrigðiskerfisins okkar og liðlega helmingur ríkisútgjalda rennur til velferðarkerfisins í heild. Það er óhjákvæmilega mjög mikið samspil á milli velferðarkerfisins og heilbrigðiskerfisins.

Með skynsamlegri fjárfestingu í heilsu landsmanna, virkni landsmanna, er hægt að spara umtalsverða fjármuni í félagslegum hluta velferðarkerfisins, t.d. þegar við horfum á ört vaxandi örorkutíðni hér á landi og ýmiss konar vandamál tengd andlegum veikindum. Þess vegna er töluvert áhyggjuefni hversu lítið er fjallað um þá þætti í stefnunni. Það er t.d. varla fjallað um endurhæfingu svo nokkru nemi. Það er hreint alveg ótrúlegt þegar við horfum á að þetta samhengi er búið að vera okkur vel þekkt árum saman. Lögð hefur verið mjög mikil áhersla á það í umfjöllun um málefni öryrkja, svo dæmi sé tekið, hversu mikilvægt það er fyrir okkur að leggja stóraukna áherslu innan heilbrigðiskerfisins á sálfræðiþjónustu, endurhæfingu og ýmiss konar virkniúrræði fyrir notendur þessarar þjónustu.

Þess vegna sakna ég mjög meiri umfjöllunar en er að finna um þessi málefni í stefnunni. Mér þykir enn fremur miður hversu markmiðssetning þessarar stefnu er veik. Hún er einstaklega óljós. Ég nefni hér máli mínu til stuðnings, með leyfi forseta, kaflann „Gæði í fyrirrúmi“. Þar segir í 1. tölulið:

„Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í því að birta niðurstöður um tilætlaðan árangur í heilbrigðiskerfinu.“

Markmið okkar hlýtur að vera að reka heilbrigðiskerfi í fremstu röð. Hér hefði maður viljað sjá skýrari markmiðssetningu um hver gæðamarkmið okkar í heilbrigðiskerfinu séu. Hvernig ætlum við að mæla þau? Hvernig ætlum við að fylgjast með því að við náum þeim árangri sem að er stefnt í þessari stefnu? En í stað þess fáum við almennt orðalag um að mæla skuli gæði, en ekki hver þau skuli vera.

Þetta er mjög kerfislæg hugsun, finnst mér. Það hlýtur að vera grundvallarskylda okkar þegar við setjum fram heilbrigðisstefnu til rúms áratugar, að setja í þeirri stefnu fram mjög skýr markmið um hverju við viljum ná fram í auknum gæðum, bættri þjónustu, þannig að heilbrigðisþjónusta okkar nýtist notendum betur á komandi árum.

Það er auðvitað rík ástæða til að hafa áhyggjur af því með hliðsjón af stefnu núverandi stjórnvalda þar sem, eins og ég nefndi hér fyrr í ræðu minni, markmiðið virðist fyrst og fremst vera heilbrigðiskerfið fyrir heilbrigðiskerfið sjálft en ekki fyrir notendur þess. Við höfum séð mýmörg dæmi þess að verið er að verja stórauknum fjármunum til heilbrigðiskerfisins án þess að af því sjáist neinn mælanlegur árangur.

Nýverið birti landlæknir niðurstöðu úttektar sinnar á svokölluðum biðlistaátökum, sem voru mikil vonbrigði. Hún kom í sjálfu sér ekki á óvart. Það stóraukna fjármagn sem sett hafði verið í að stytta biðlista á ýmsum sviðum hafði ekki skilað tilætluðum árangri, langt í frá. Ég átti fyrir skömmu orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem ég ræddi einmitt þetta vandamál, að við sæjum jafnvel minnkandi afköst á ákveðnum sviðum heilbrigðiskerfisins, sér í lagi þegar kæmi t.d. að liðskiptaaðgerðum, augasteinsaðgerðum og fleiru, þar sem væri verið að veita aukna fjármuni til að vinna á biðlistum en aðgerðum væri beinlínis að fækka, biðlistar jafnvel að lengjast.

Í mínum huga helgast þetta fyrst og fremst af stefnu núverandi ríkisstjórnar. Að allt nýtt fjármagn inn í kerfið verði að fara til hins ríkisrekna kerfis í stað þess að horfa til einfaldrar nálgunar: Hvar nýtist fjármagnið best, bæði kostnaðarlega séð fyrir ríkissjóð, en ekki síður afkastalega séð fyrir notendur þjónustunnar? Hvernig mætum þörfum notenda heilbrigðiskerfisins best þannig að heilbrigðisþjónusta verði mikil að gæðum en ekki síður tímanleg, og svo hagkvæm sem kostur er fyrir ríkissjóð?

Ég held að hér hefði þurft að verja talsvert meiri tíma í að móta skýrari markmið á hverju sviði. Þegar við horfum til þátta eins og skilvirkra innkaupa er enn og aftur mjög almennt orðalag um hvernig það skuli unnið en ekki verður með neinum hætti séð að þar séu nokkur mælanleg árangursmarkmið sem hönd á festir, sem hægt er að meta árangur þessarar stefnu út frá. Það er raunar rauði þráðurinn eða stefið í þessari stefnu allri. Það verður eiginlega ekki nokkur leið að meta árangurinn af henni þegar fram í sækir.

Ég vona að heilbrigðisáætlanir hæstv. heilbrigðisráðherra verði bitastæðari hvað þetta varðar og þar verði þó sett fram raunveruleg, mælanleg markmið sem við getum metið árangur okkar betur út frá.

Aðeins aftur að því sem ég nefndi í upphafi, samspili félagslega hluta velferðarþjónustunnar og heilbrigðiskerfisins. Þar sakna ég þess aftur mjög að sjá meiri umfjöllun um mikilvægi þess samspils. Ég nefndi fullkominn skort á umræðu um mikilvæga þætti eins og geðheilbrigðismálin, sálfræðiþjónustuna, endurhæfinguna, sem varla er nefnd hér á nafn. Við sjáum nefnilega, eins og kom svo skýrt fram í nýlegri í skýrslu sem fyrrverandi félagsmálaráðherra Árni Páll Árnason vann fyrir norrænu ráðherranefndina, hvað það er mikilvægt að við beitum fyrir okkur nýsköpun í velferðarþjónustunni. Að við hugsum til nýrra leiða til að veita notendum þjónustunnar þá þjónustu sem þeir þarfnast raunverulega, að við festumst ekki um of í kreddum um það hvar sú þjónusta sé veitt, með hvaða hætti, af því að við erum alltaf að sjá skýrar og skýrar hvað fjölbreytt úrræði eru mikilvæg. Hvað það er mikilvægt að notendur þjónustunnar geti valið sér þjónustu við hæfi, hafi valmöguleika um mismunandi leiðir, sér í lagi þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustunni og sálfræðiþjónustunni. Þar eru, og við sjáum fjölmörg dæmi þess hér og á hinum Norðurlöndunum, alls kyns nýjar leiðir sem verið er að fara, oft sjálfsprottnar, settar fram á vegum frjálsra félagasamtaka, þar sem hugsað er aðeins út fyrir rammann. Menn festast ekki í því hvernig hlutirnir hafa verið gerðir heldur spyrja: Hvernig getum við hjálpað einstaklingunum með fjölbreyttan vanda sem best þannig að það gagnist þeim?

Þar sjáum við að einstaklingsmiðuð nálgun skiptir gríðarlega miklu máli og skilar ekki aðeins meiri árangri en gamalgrónar, hefðbundnar leiðir, heldur er það miklu hagkvæmara fyrir ríkissjóð sem greiðanda þjónustunnar. Um það erum við jú öll hér sammála, að við viljum opinbert heilbrigðiskerfi í því samhengi að það sé ríkið sem sé greiðandi þjónustunnar og að kostnaðarþátttaka notenda hennar sé eins lítil og kostur er. En við megum ekki festa okkur í þeirri kreddu sem núverandi ríkisstjórn er algjörlega pikkföst í, að öll sú þjónusta verði að vera veitt af hálfu ríkisins.

Það er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga að heilbrigðisþjónusta okkar í dag, og velferðarþjónustan í raun og veru einnig í heild, er að stórum hluta veitt af alls kyns rekstraraðilum utan ríkis. Því fer fjarri að það séu allt saman fyrirtæki eða samtök rekin í hagnaðarskyni. En við sjáum hjúkrunarheimili, dvalarheimili rekin af sjálfseignarstofnunum. Við sjáum mjög fjölbreytta flóru í velferðarkerfinu þar sem eru mjög áhugaverð verkefni eins og Hugarafl og fleira, notendastýrð þjónusta, jafnvel jafningjaþjónusta þar sem við sjáum umtalsverðan árangur með mun minni tilkostnaði en innan hins ríkisrekna kerfisins.

Þess vegna skiptir svo miklu máli þegar við setjum stefnu um heilbrigðisþjónustu til næstu 11 ára, eins og hér er um að ræða, að hugsa hana út frá notendum þjónustunnar en ekki kerfunum sjálfum, að stefnan sé ekki sett fyrir kerfið heldur fyrir okkur sem notendur þess. Og um leið séum við að hámarka gæði þjónustunnar, að tryggja að þjónustan sé veitt með ýtrustu skilvirkni, því að við vitum jú hvaða áskorunum við stöndum frammi fyrir með auknum kostnaði heilbrigðiskerfisins og velferðarþjónustunnar í heild, m.a. með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar og auðvitað sífellt vaxandi kröfum sem við gerum til heilbrigðiskerfisins og velferðarþjónustunnar í heild. Þá skiptir skilvirknin gríðarlega miklu máli.

Á þessu sviði eins og öðrum eigum við að beita fyrir okkur fjölbreyttum úrræðum, þar með talið einkareknum, til að ýta undir nýsköpun, samkeppni í því að veita sem besta og skilvirkasta þjónustu og síðast en ekki síst til að tryggja starfsfólki velferðarkerfisins, starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar, fjölbreytta starfsmöguleika.

Það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli þegar kemur að þeim mönnunarvanda sem við glímum við, sér í lagi innan heilbrigðiskerfisins, að við séum með fjölbreytta starfsmöguleika innan þess, að einu möguleikarnir séu ekki bara fyrir sérfræðinga eða að ráða sig til starfa t.d. á Landspítala. Það hjálpar okkur líka að laða hingað til lands hæft starfsfólk, hvort sem það er íslenskt eða erlent. Það er alveg eins í þessu umhverfi og hverju öðru, fólk vill hafa val. Fólk vill geta valið á milli mismunandi vinnustaða, geta valið um fjölbreytt tækifæri.

Þess vegna verð ég að segja eins og er að þessi atlaga að því að marka okkur skýra og árangursríka heilbrigðisstefnu til langs tíma hefur alls ekki tekist eins og vonir stóðu til, alla vega af minni hálfu. Við hefðum þurft að verja talsvert lengri tíma í hana. Enn og aftur: Því veldur líka vonbrigðum hversu litlum breytingum stefnan tekur í meðhöndlun þingsins.

Ég vona svo sannarlega að okkur auðnist að vinna betur úr þegar kemur að umfjöllun um einstaka liði heilbrigðisþjónustunnar í umræðu um fjármálaáætlanir og fjárlög komandi ára og er ekki vanþörf á að halda núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra við efnið um að hugsa nú um notendur þjónustunnar en ekki kerfið sjálft.