149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[18:16]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur hjá hv. þingmanni. Það er rétt að ánægjulegt er að tekið skuli fram sérstaklega að Sjúkratryggingar skuli annast samninga við alla þjónustuveitendur, sem er auðvitað mjög eðlilegt. Sjúkratryggingar eiga að bera þá ábyrgð öðrum fremur að þörfum notenda þjónustunnar sé mætt með sem skilvirkustum hætti og semja þá í þeim tilgangi við þá aðila sem hverju sinni hentar best í þeim samanburði.

Ég hef sjálfur ákveðnar áhyggjur t.d. þegar kemur að hinni svokölluðu DRG-nálgun, þ.e. að við semjum á einhvers konar einingakostnaði. Við heyrum endalaust dæmi þess að innan til að mynda Landspítalans sé verið að nota einhvers konar breytilegan kostnað við aðgerðir meðan aðilar í einkarekstri þurfa að borga allan rekstrarkostnað sinn, eins og Landspítalinn þarf auðvitað líka að gera. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort það geti verið að aðferðafræði Landspítalans til að nálgast ný verkefni, þ.e. að „bjóða í þau“ eða bjóða í aðgerðir á breytilegum kostnaði, valdi því síðan, sem við sjáum núna, að tap spítalans eykst, því að sjálfsögðu þarftu að styrkja stoðþjónustu hjá þér líka eftir því sem umfang þitt vex. Ef ekki er verið að rukka fyrir það í samningum um t.d. biðlistaátak eða þess háttar kemur það bara fram einhvers staðar í rekstrinum í auknu tapi. Það er staðan sem við sjáum hjá Landspítalanum eftir síðasta ár, það er umtalsverður halli.

Hitt sem hv. þingmaður nefnir held ég að við eigum alveg ómæld tækifæri í og það er stóraukin áhersla á rafrænar lausnir í heilbrigðisþjónustunni, sérstaklega þegar kemur að heilsugæslunni. Ég veit að ég þarf enn, ef ég ætla ekki að bíða í fjórar til fimm vikur eftir viðtali við heimilislækninn minn, að byrja á því að bíða í biðröð í síma eftir því að athuga hvort ég geti mögulega fengið hálftímaviðtal eftir viku, (Forseti hringir.) í stað þess að ég geti bara skráð mig inn í gegnum rafræna þjónustugátt eða jafnvel sent lækninum beint beiðni um einföld viðvik sem mig vantar. (Forseti hringir.) Ég held að við höfum þar mikil tækifæri (Forseti hringir.) til að bæði auka þjónustustigið og skilvirkni kerfisins um leið.