151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

þingsköp Alþingis.

469. mál
[22:21]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, opnir nefndarfundir, frá minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

„Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Þór Fanndal frá Íslandsdeild samtakanna Transparency International. Nefndinni barst umsögn um málið frá Íslandsdeild samtakanna Transparency International.

Með frumvarpinu er lagt til að meginreglan um fundi þingnefnda verði sú að þeir verði haldnir í heyranda hljóði og sendir út á vef en að heimilt verði að halda lokaða nefndarfundi við sérstakar aðstæður.

Almennt: Samkvæmt gildandi lögum um þingsköp Alþingis eru fundir fastanefnda að jafnaði lokaðir fjölmiðlum og almenningi en mögulegt að halda opna fundi við tiltekin tilefni. Frumvarp þetta felur í sér að meginreglan verði að þingfundir verði haldnir í heyranda hljóði og sendir út á vef. Fundir verði einungis haldnir fyrir luktum dyrum þegar málefnalegar ástæður eru fyrir því. Minni hlutinn telur mikilvægt að skilyrt heimild til að halda lokaða fundi verði til staðar og telur að þær heimildir sem koma fram í frumvarpinu nægi til þess að mögulegt verði að loka fundum þegar það á við.

Réttur almennings: Almenningur á rétt á upplýsingum um það hvernig yfirvöld taka ákvarðanir og hvaða sjónarmið liggja að baki ákvörðunum um hagi hans. Löggjafarferlið er gegnsætt að því leyti að frumvörp eru aðgengileg opinberlega áður en þau eru tekin til umræðu, umræðum í þingsal er streymt á netinu í rauntíma og þær síðar birtar skriflega, umsagnir sem berast nefndum eru að jafnaði birtar opinberlega og sömuleiðis nefndarálit og atkvæðagreiðslur þingmanna. Þannig geta almenningur, fjölmiðlar og aðrir hagsmunaaðilar glöggvað sig á gangverki löggjafarvaldsins að miklu leyti. Undantekningin á þessu eru nefndarfundir, sem jafnan fara fram fyrir luktum dyrum auk þess sem almennt er óheimilt að vitna til orða sem falla á slíkum fundum.

Frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að auka gegnsæi þingstarfa og tryggja upplýsingarétt almennings um störf Alþingis. Aukið aðgengi að upplýsingum um meðferð þingmála eflir getu fjölmiðla til að fjalla um ólík sjónarmið sem þeim tengjast, styrkir aðhald sem almenningur veitir valdhöfum og gerir hinum almenna borgara betur kleift að öðlast fullan skilning á forsendum þeirra ólíku sjónarmiða sem kunna að koma fram við meðferð mála í nefndum.

Aðsendar umsagnir og umræður í nefnd: Nú þegar eru umsagnir sem berast nefndum frá utanaðkomandi hagsmunaaðilum birtar opinberlega á vef Alþingis og lýsa þær sjónarmiðum sem aðilar óska eftir að vekja athygli þingmanna á við meðferð þingmála. Í framhaldi af móttöku aðsendra umsagna eru gestir gjarnan boðaðir á fund þingnefndar þar sem sjónarmiðin sem koma fram í umsögnum eru kynnt og tíðum útskýrð með ítarlegri hætti. Þar gefst nefndarmönnum jafnframt færi á að spyrja spurninga og máta ólík sjónarmið við sjónarmið gesta. Umræða í nefndum er því langoftast eðlilegt framhald á umfjöllun um sjónarmið sem þegar eru birt opinberlega.

Minni hlutinn telur skjóta skökku við að umsagnir sem nefndum berast séu aðgengilegar opinberlega en að umfjöllun um þær fari fram á lokuðum nefndarfundum. Almenningur og fjölmiðlar fari þannig á mis við ítarlegri skýringar, svör við spurningum sem vakna og röksemdafærslur sem koma fram um sjónarmið í umsögnum.

Tillaga um afgreiðslu: Í umsögn Íslandsdeildar samtakanna Transparency International til nefndarinnar kemur m.a. fram að greiður aðgangur almennings að störfum Alþingis sé mikilvægur þáttur til að tryggja og verja virkt og heilbrigt lýðræði og nauðsynlegt aðhald gagnvart þeim sem treyst hefur verið fyrir löggjafar- og framkvæmdarvaldinu. Samþykkt frumvarpsins væri, að mati deildarinnar, til þess fallin að auka traust í samfélaginu. Minni hlutinn tekur undir þessi sjónarmið.

Að framansögðu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.“

Undir nefndarálitið rita Jón Þór Ólafsson sem hér stendur, formaður og framsögumaður málsins, Andrés Ingi Jónsson og Guðmundur Andri Thorsson.